Fótbolti

Sara hughreysti vinkonu sína í Wolfsburg eftir úrslitaleikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
saraharder

Sara Björk Gunnarsdóttir sýndi sannan íþróttaanda eftir úrslitaleik Lyon og Wolfsburg í Meistaradeild Evrópu í gær. Sara skoraði í 3-1 sigri Lyon sem varð Evrópumeistari fimmta árið í röð.

Sara lék í fjögur ár með Wolfsburg en yfirgaf félagið í sumar. Hún á margar góðar vinkonur í þýska liðinu en sú besta er líklega hin danska Pernille Harder.

Eftir leikinn á Anoeta vellinum í gær gekk Sara til Harder, tók utan um hana og hughreysti hana.

Harder hefur leikið með Wolfsburg frá 2017 og er fyrirliði liðsins. Hún er einnig fyrirliði danska landsliðsins.

Eins og fyrr sagði eru Harder og Sara miklar vinkonur en Sara fór m.a. fögrum orðum um þá dönsku í ævisögu sinni, Óstöðvandi, sem kom út fyrir síðustu jól.

Sara og Harder unnu deild og bikar með Wolfsburg fjögur ár í röð (2017-20) og hjálpuðu liðinu að komast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2018. Þar tapaði Wolfsburg fyrir Lyon, 4-1.

Í gær var Sara hins vegar í sigurliði í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Hún gulltryggði sigur Lyon með marki á 88. mínútu. Landsliðsfyrirliðinn fagnaði þó mjög hóflega af virðingu við sína gömlu liðsfélaga.


Tengdar fréttir

Sara Björk skoraði og Lyon er Evrópu­meistari

Sara Björk Gunnarsdóttir er Evrópumeistari í fyrsta sinn eftir að Lyon vann 3-1 sigur á Wolfsburg í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í kvöld. Sara Björk skoraði í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×