Íslenski boltinn

KR-konur koma úr sóttkví og fara beint í bikarleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði tvö mörk þegar KR spilaði síðast leik í Mjólkurbikarnum þegar liðið var nýkomið úr sóttkví.
Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði tvö mörk þegar KR spilaði síðast leik í Mjólkurbikarnum þegar liðið var nýkomið úr sóttkví. Vísir/Vilhelm

Átta liða úrslit Mjólkurbikars kvenna fara öll fram á morgun og þar spila KR-konurnar langþráðan leik.

Leikmenn úr meistaraflokki kvenna í knattspyrnu hjá KR losnuðu loksins úr sóttkví í vikunni og verða í eldlínunni á morgun þegar átta liða úrslit Mjólkurbikarsins verða spiluð.

KR liðið heimsækir þá FH í Kaplakrika í átta liða úrslitum og getur þar komist í undanúrslit Mjólkurbikarsins annað árið í röð en KR-konur fóru alla leið í bikarúrslitaleikinn í fyrra.

KR vann Tindastóll 1-0 í átta liða úrslitunum í fyrra. FH-konur eru aftur á móti í fyrsta sinn í átta liða úrslitum bikarsins í átta ár eða síðan þær mættu Val sumarið 2012.

KR-konur fóru í sóttkví í þriðja sinn í sumar 20. ágúst síðastliðinn og leikurinn á móti FH í bikarnum verður því fyrsti keppnisleikur liðsins í sautján daga eða síðan að KR tapaði naumlega á móti Val 17. ágúst.

KR-liðið hafði áður farið í sóttkví eftir að smit kom upp hjá Breiðabliki í júní og svo aftur í byrjun ágúst þegar einstaklingur tengdur liðinu greindist með kórónuveiruna.

Nú síðast greindist einn úr starfsliði meistaraflokks kvenna hjá KR með kórónuveiruna og KR-konur voru því enn á ný komnar í sóttkví.

Síðan þá hefur þurft að fresta þremur leikjum KR-kvenna í Pepsi Max deildinni eða leikjum á móti Selfossi, Fylki og Breiðabliki.

KR-konur byrjuðu líka á bikarleik eftir sóttkvína sína í júní en þær unnu þá 4-1 sigur á Tindastól á Meistaravöllum.

Þetta verður annar leikur KR og FH í sumar en KR-konur unnu deildarleik liðanna í Vesturbænum 3-0 í júlí.

Leikur FH og KR hefst klukkan 17.00 og verður sýndir beint á Stöð 2 Sport 3. Á sama tíma verður leikur Selfoss og Vals sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Hinir tveir leikirnir í átta liða úrslitunum eru síðan leikur Þór/KA og Lengjudeildarliðs Hauka á Þórsvelli sem hefst klukkan 17.00 og svo leikur Lengjudeildarliðs ÍA og Breiðabliks sem fer fram í Akraneshöllinni og hefst klukkan 19.00.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×