Íslenski boltinn

Alfreð: Baráttulega séð vorum við algjörir sykurpúðar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Alfreð Elías var ánægður með sigurinn þó lið hans hafi verið undir í baráttunni.
Alfreð Elías var ánægður með sigurinn þó lið hans hafi verið undir í baráttunni. vísir/vilhelm

Selfoss vann dramatískan 1-0 sigur á Íslandsmeisturum Vals er liðin mættust í 8-liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna í knattspyrnu í dag.

Þar með geta Selfyssingar varið titil sinn en þær eru ríkjandi bikarmeistarar. Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði eina mark leiksins en markvörður bikarmeistaranna, Kaylan Jenna Marckese, stal senunni. Hún varði oft á tíðum ótrúlega, þar á meðal vítaspyrnu Elínar Mettu Jensen undir lok leiks.

„Ég er bara ótrúlega ánægður að hafa unnið þennan leik gegn mjög sterku liði Vals,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss eftir leikinn í dag. „Þetta var frábær frammistaða, kannski ekki fótboltalega séð, en baráttulega séð vorum við algjörir sykurpúðar.“

Alfreð hrósaði Kaylan, sem og liðinu öllu. „Kaylan bara frábær í markinu, Áslaug og Anna og bara varnarlínan frábær og bara allt liðið að vinna vel. Valur hefði klárlega getað skorað mark og við hefðum getað gert betur í fyrri hálfleik. Mér fannst við vera betri í fyrri hálfleik en þær tóku svolítið völdin í þeim seinni og það kom kafli frá 60. til 75.mínútu þar sem við áttum undir högg að sækja en við stóðum það af okkur og skoruðum frábært mark.“

Valskonur vildu fá vítaspyrnu í fyrri hálfleik, en Alfreð gaf ekki mikið fyrir það. „Þær vildu fá mikið, þær voru mikið að vilja en dómarinn var með ágætislínu á leiknum en þetta er bara fótboltinn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×