Bíó og sjónvarp

Covid-smit hægir á Leðurblökumanninum

Kjartan Kjartansson skrifar
Gríma Leðurblökumannsins virðist ekki hafa varið Robert Pattinson fyrir kórónuveirusmiti.
Gríma Leðurblökumannsins virðist ekki hafa varið Robert Pattinson fyrir kórónuveirusmiti. Vísir/EPA

Robert Pattinson, aðalleikarinn í væntanlegri kvikmynd um Leðurblökumanninn, er sagður smitaður af Covid-19. Framleiðsla á myndinni hefur verið stöðvuð tímabundið af þeim sökum en tökur voru nýhafnar.

Warner brothers, framleiðandi kvikmyndarinnar, sagði aðeins í yfirlýsingu að starfsmaður við framleiðsluna hefði greinst smitaður af Covid-19 og væri í einangrun. Vanity Fair hefur eftir heimildum sínum að það sé Pattinson sjálfur sem sé smitaður.

Framleiðslan á nýju myndinni um Leðurblökumanninn stöðvaðist fyrr á þessu ári vegna sóttvarnaaðgerða í kórónuveiruheimsfaraldrinum. Tökur í myndveri rétt utan við London hófust nýlega.

Áætlað er að myndin verði sýnd á næsta ári en auk Pattinson skartar hún Colin Farrell í hlutverki Mörgæsarinnar, Paul Dano sem Gátumeistinn og Zoë Kravitz í hlutverki Selinu Kyle sem síðar verður Kattarkonan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×