Innlent

Hvetur til uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði samhliða hlutdeildarlánum

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Félagsmálaráðherra telur að framboð á nýju húsnæði aukist samhliða aukningu á hlutdeildarlánum ríkisins. Lánin muni því ekki valda hækkun á fasteignamarkaði.

Nýsamþykkt lög um hlutdeildarlán gilda um fyrstu kaup einstaklinga eða fjölskyldna sem uppfylla ákveðið tekjuviðmið. Kaupandi leggur þannig út 5% við kaup á nýrri fasteign, lánastofnun allt að 75% og ríkið lánar svo 20-30% í hlutdeildarlán. Það lán ber ekki vexti og er almennt ekki greitt til baka fyrr en við sölu fasteignarinnar og er þá greitt hlutfall af söluverði fasteignar.

Fasteignin þarf að vera nýbygging eða húsnæði sem hefur verið skilgreint sem hagkvæmt húsnæði. 

Ásmundur Einar Daðason  félagsmálaráðherra óttast ekki að úrræðið muni fela í sér hækkun á fasteignaverði.

„Við lögðum upp með það að við myndum tryggja aukið framboð á húsnæði samhliða þessu úrræði þannig að það hefði ekki í för með sér hækkun á húsnæðisverði eins og mörg úrræði hafa gert gegnum tíðina. Hins vegar er að draga úr umsvifum á fasteignamarkaði og þessi aðgerð á að virka vel inní það,“ segir Ásmundur. 

Gert er ráð fyrir að á ári hverju verði veitt um 400 hlutdeildarlán. Ásmundur telur að það verði ekki vöntun á húsnæði.

„Það er húsnæði í byggingu nú þegar það er t.d. í byggingu í Gufunesi en við erum líka að koma með ákall til byggingariðaðarins, verktaka og sveitarfélaga um að byggja hagkvæmt húsnæði,“ segir hann. 

Ásmundur segir að von sé að nýrri vefsíðu þar sem lánin eru útskýrð en lögin varðandi þau taka gildi 1 nóvember.

„Við ætlum að aðstoða það fólk sem fær ekki aðstoð frá eldri kynslóðum til að koma sér upp sínu eigin húsnæði,“ segir hann að lokum. 


Tengdar fréttir

Hlutdeildarlánin samþykkt á Alþingi

Frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um hlutdeildarlán við fyrstu kaup var samþykkt í kvöld.

Byltingar­kennd lausn

Alþingi hefur samþykkt frumvarp um hlutdeildarlán, þau eru byltingarkennd lausn á húsnæðismarkaði og kemur til móts við ungt fólk og tekjulága. Markmiðið með lögunum er að auðvelda þessum hópi að eignast sína fyrstu íbúð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×