Bíó og sjónvarp

Stjörnum prýdd stikla Dune

Samúel Karl Ólason skrifar
Josh Brolin og Timothée Chalamet í hlutverki Gurney Halleck og Timothée Chalamet.
Josh Brolin og Timothée Chalamet í hlutverki Gurney Halleck og Timothée Chalamet.

Warner Bros hafa birt fyrstu stiklu myndarinnar Dune eftir Denis Villeneuve. Myndin, sem er stjörnum prýdd, byggir á bókum Frank Herbert og fjallar um Atreidesættina og baráttu hennar við Harkonnenættina um plánetuna Arrakis, sem einnig kallast Dune.

Meðal leikara í myndinni eru þau Timothée Chalamet, Zendaya, Rebecca Ferguson, Oscar Isaac, Jason Momoa, Josh Brolin, Dave Bautista, Stellan Skarsgård og Javier Bardem.

Villeneuve sjálfur er hvað þekktastur fyrir myndir eins og Arrival, Blade Runner 2049 og Sicario.

Frumsýna á Dune þann 18. desember. Þetta ár hefur þó ekki gengið vel, vægast sagt, og miðað við síðustu mánuði má kannski búast við töfum. Jafnvel vegna geimveruinnrásar eða engisprettufaraldurs. Hver veit?

Við það má bæta að Vileneuve ætlar að gera tvær myndir um Dune, fyrstu bók Herbert, og þetta er sú fyrri, eðli málsins samkvæmt.

Dune gerist í stórum og ítarlegum söguheimi sem inniheldur engar tölvur. Heilar manna eru þjálfaðir í að framkvæma gífurlega flókna útreikninga og menn hafa náð mun meiri stjórn á hugsunum sínum. Á Arrakkis finnst „Kryddið“ segir gerir mönnum kleift að efla heila sína enn fremur og meðal annars stýra geimskipum langar vegalengdir.

Arrakis er því mjög mikilvæg pláneta.

Plánetum í þessum söguheimi er stjórnað af aðalsættum og þeim er stýrt af keisara. Atreidesættin tekur við stjórn Arrakis af Harkonnenættinni að skipan keisarans og á Leto Atreides (Oscar Isaac) að auka framleiðslu Krydds.

Ekki er þó allt sem sýnist og fljótt verður ljóst að Arrakis er mjög svo hættuleg.

Áhugasamir geta lesið grein Entertainment Weekly þar sem Villeneuve fer yfir það helsta sem sjá má í stiklunni og útskýrir söguheiminn betur.

Kvikmyndin Dune, sem fjallar um sömu bækur var gefin út árið 1984. Árið 2000 var svo gefin út sjónvarpssería, sem hét einnig Dune, og framhald af henni, Children of Dune, var gefið út 2003.

Hér má sjá Stephen Colbert ræða við Villeneuve og leikara myndarinnar um stikluna og myndina sjálfa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×