Íslenski boltinn

Stórleikir í undanúrslitum Mjólkurbikarsins

Sindri Sverrisson skrifar
Selfyssingar eiga enn möguleika á að verja bikarmeistaratitil sinn.
Selfyssingar eiga enn möguleika á að verja bikarmeistaratitil sinn. VÍSIR/DANÍEL

Dregið var til undanúrslita karla og kvenna í Mjólkurbikarnum í fótbolta í beinni útsendingu á Vísi og Stöð 2 Sport í kvöld.

Það verður sannkallaður stórleikur í undanúrslitum kvenna þegar bikarmeistarar Selfoss mæta Breiðabliki, en Selfyssingar eru eina liðið sem unnið hefur Blika í Pepsi Max-deildinni í sumar.

KR og Þór/KA mætast í hinum undanúrslitaleiknum, og fara leikirnir fram 1. nóvember á hlutlausum velli. Úrslitaleikur kvenna ætti svo að fara fram 6. nóvember.

Reykjavíkurstórveldin mætast

Ekki verður síður stórleikur í undanúrslitum karla þar sem Reykjavíkurstórveldin Valur og KR mætast. ÍBV, sem leikur í næstefstu deild, er komið alla leið í undanúrslitin og mætir þar FH.

Undanúrslit karla eiga að fara fram 4. nóvember, og verður leikið á hlutlausum velli, og áætlað er að úrslitaleikurinn fari fram 8. nóvember.

Ákveðið var að undanúrslit keppninnar færu fram á hlutlausum völlum, en ekki á heimavelli annars liðsins, vegna þess hve seint á árinu er leikið. Kórónuveirufaraldurinn veldur því hve mótið hefur dregist á langinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×