Umfjöllun: KR - Sel­foss 0-5 | Hólmfríður sá um sitt gamla lið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir átti frábæran leik en henni líður augljóslega vel í Frostaskjólinu.
Hólmfríður Magnúsdóttir átti frábæran leik en henni líður augljóslega vel í Frostaskjólinu. Vísir/Hulda

Fyrir leik var búist við hörku leik enda Selfyssingar tapað tveimur í röð á meðan KR valtaði yfir ÍBV í síðustu umferð. Þá var Dagný Brynjarsdóttir ekki með gestunum og talið að það gæti haft áhrif á þeirra leik.

Annað átti þó eftir að koma á daginn. Selfyssingar fóru á kostum og unnu 4-0 sigur sem hefði á öðrum degi verið enn stærri.

Gestirnir byrjuðu leikinn af krafti og voru í raun eina liðið sem mætti til leiks. Heimastúlkur voru einfaldlega ekki með fyrstu 45 mínútur leiksins enda staðan orðin 3-0 Selfyssingum í vil þá og mögulega hefðu mörkin átt að vera fleiri. Hólmfríður Magnúsdóttir átti skalla í stöng og Anna Björk Kristjánsdóttir klúðraði algeru dauðafæri eftir fast leikatriði.

Staðan samt sem áður 3-0 þökk sé tveimur mörkum Hólmfríðar Magnúsdóttur og einu frá Tiffany McCarty. Reynar var óvíst hvor þeirra skoraði annað mark gestanna en Hólmfríður stangaði þá hornspyrnu Clöru Sigurðardóttur í átt að marki, Tiffany virtist ætla að flikka honum á markið en boltinn virtist ekki snerta hana og fór þaðan fram hjá bæði Ingibjörgu Valgeirsdóttur í marki KR sem og varnarmönnum liðsins.

Clara gerði svo út um leikinn í upphafi síðari hálfleiks með góðu marki en hún átti þá gott hlaup inn í teig og kláraði fyrirgjöf Magdalenu Önnu Reimus af öryggi. Staðan orðin 4-0 gestunum í vil en Hólmfríður átti lokaorðið.

Þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka fullkomnaði hún þrennu sína með skalla eftir horn. Aftur var varnarleikur KR ekki til staðar og Hólmfríður skoraði fimmta mark Selfyssinga.

Staðan orðin 5-0 og reyndust það lokatölur leiksins.Sigurinn lyftir Selfyssingum upp í 3. sæti deildarinnar með 19 stig en Fylkir er með jafn mörg stig í 4. sætinu og á leik til góða. KR er sem fyrr á botni deildarinnar.

Af hverju vann Selfoss?

Voru betri á öllum sviðum í dag. Flóknara er það ekki.

Hverjar stóðu upp úr?

Hólmfríður Magnúsdóttir var frábær í fremstu línu hjá gestunum. Það er nokkuð ljóst að þessi fyrrverandi KR-ingur kann vel við sig í Frostaskjólinu en hún kom að öllum mörkum Selfyssinga.

Þá var Tiffany einnig mjög flott í fremstu línu og hin unga Clara frábær á miðri miðju Selfyssinga. Kaylan var flott í markinu og Anna Björk Kristjánsdóttir örugg í vörninni, hún hefði þó átt að skora.

Hjá KR átti Ingibjörg Valgeirsdóttir eflaust hvað skástan dag en hún gat lítið gert í mörkunum sem KR fékk á sig og varði nokkrum sinnum vel.

Hverjar áttu slæman dag?

Má segja að nær allir KR-ingar hafi átt slæman dag. Varnarlína liðsins var varla til staðar í dag. 

Hvað gerist næst?

Nokkuð langt er í næstu leiki liðanna vegna landsleikjahlés. Þann 26. september leika þau næst en á meðan KR-ingar fá Stjörnuna í heimsókn leika Selfyssingar á heimavelli gegn Þrótti Reykjavík.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira