Lífið

Reggí­goð­sögnin Toots Hibbert látin

Atli Ísleifsson skrifar
Toots Hibbert á tónleikum á síðasta ári.
Toots Hibbert á tónleikum á síðasta ári. Getty

Jamaíski tónlistarmaðurinn Toots Hibbert er látinn, 77 ára gamall. Hibbert var einn af frumkvöðlum reggítónlistarinnar, en hann stofnaði sveitina Toots & the Maytals á sjöunda áratugnum.

Talið er að orðið „reggí“ (e. reggae) eigi uppruna sinn í lagi sveitarinnar, Do the Reggay, frá árinu 1968.

The Maytals starfaði með mörgum stærstu framleiðendum í heimi reggítónlistar og þá voru þeir félagar og samstarfsmenn Bob Marley. Komu þeir oft fram saman og störfuðu fyrir sama útgáfufyrirtæki.

„Það voru engin vandamál, ein starfstengd öfundsýki. Við vorum öll góðir vinir,“ sagði Toots Hibbert eitt sinn um sambandið við Marley.

Toots & the Maytals gáfu í síðasta mánuði út sína fyrstu plötu í um áratug, Got to Be Tough og komu Ziggy Marley og Ringo Starr meðal annars að útgáfu plötunnar.

Hibbert andaðist á sjúkrahúsi í jamaísku höfuðborginni Kingston eftir veikindi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×