Viðskipti innlent

Mikil eftirspurn eftir stuðningslánum

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Fækkun ferðamanna vegna kórónuveirufaraldursins  hefur haft gríðarleg áhrif á fyrirtæki í geiranum. 
Fækkun ferðamanna vegna kórónuveirufaraldursins  hefur haft gríðarleg áhrif á fyrirtæki í geiranum.  Vísir/Vilhelm

Mikil eftirspurn hefur verið eftir stuðningslánum hjá viðskiptabönkunum. Viðskiptasaga fyrir kórónuveirufaraldurinn er fyrst og fremst skoðuð þegar bankanir meta hvort fyrirtæki eru lífvænleg.

Frá því kórónuveirufaraldurinn hófst hefur ríkistjórnin kynnt fjölmargar aðgerðir til handa fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir verulegum tekjumissi. 

Við sögðum frá því í gær að ríkissjóður hefur þegar greitt um 272 fyrirtækjum tæpa átta milljarða í hluta launakostnaðar á uppsagnafresti starfsfólks. Gert er ráð fyrir að allt að 27 milljarða króna fari í heild í úrræðið. 

Forsvarsfólk ferðaþjónustunnar hefur sagt í fréttum okkar að þörf sé á frekari úrræðum frá ríkisstjórninni þar sem langflest fyrirtæki í greininni séu að leggjast í dvala. 

Þá þurfi bankarnir að styðja vel við fyrirtæki sem tengjast ferðaþjónustu næstu misseri.

 Fréttastofa leitaði svara frá Arion banka, Íslandsbanka og Landsbanka um hver eftirspurnin hefur verið eftir þeim úrræðum sem stjórnvöld hafa kynnt og hvernig hefur gengið að afgreiða þau í bönkunum.

Allir bankarnir hafa fengið fjölmargar umsóknir um stuðningslán með ríkisábyrgð en í upphafi voru veittar allt að tíu milljónir króna með 100% ábyrgð og nú er hægt að sækja um allt að 40 milljónir með 85% ríkisábyrgð. Þessi lán verða veitt til áramóta.

Bankarnir hafa veitt 530 slík lán. Hins vegar hafa einungis Arion banki og Landsbanki veitt sitt hvort viðbótarlánið en það eru lán með 18 mánaða ríkisábyrgð. Þá eru innan við 20 fyrirtæki komin í greiðsluskjól hjá bönkunum.

Misjafnt er milli bankanna hvort margir hafi sótt um framhald á frystingu lána.

 Þá eru allir bankarnir á einu máli um að við mat á ferðaþjónustufyrirtæki sé miðað við rekstrarsögu fyrir kórónuveirufaraldurinn.


Tengdar fréttir

Bankarnir með líf margra ferðaþjónustufyrirtækja í sínum höndum

Níu af hverjum tíu ferðaþjónustufyrirtækjum leggjast í dvala um næstu og þarnæstu mánaðarmót og fjöldi fólks er á leið á atvinnuleysisbætur að sögn framkvæmdastjóra Eldingar. Greinin tali fyrir því að fá rekstrarstyrki frá ríkissjóði svo hægt sé að viðhalda ráðningarsambandi við starfsfólk.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×