Körfubolti

Silkimjúk sending frá Martin þegar Valencia komst í úrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson er farinn að láta til sín taka hjá spænska liðinu Valencia Basket. Hann á síðan afmæli í dag.
Martin Hermannsson er farinn að láta til sín taka hjá spænska liðinu Valencia Basket. Hann á síðan afmæli í dag. Getty/JM Casares

Martin Hermannsson missti ekki af úrslitaleik með Alba Berlin á síðustu leiktíð og hann er kominn í sinn fyrsta úrslitaleik með Valencia á Spáni.

Valencia vann átta stiga sigur á þýska liðinu Bayern München, 84-76, í æfingamóti á vegum EuroLeague deildarinnar. Mótið heitir „We’re Back“ EuroLeague eða „Við erum mætt aftur“ æfingamótið.

Martin Hermannsson er þegar kominn í stórt hlutverk hjá sínu nýja félagi en hann var í byrjunarliðinu og endaði leikinn með 12 stig og 4 stoðsendingar.

Ein af stoðsendingunum hans vakti sérstaka athygli en sú var silkimjúk og var tekin fyrir á Twitter-síðu EuroLeague eins og sjá má hér fyrir neðan.

Martin spilaði alls í 19 mínútur í leiknum og hitti úr 3 af 5 skotum utan af velli og úr öllum vítunum. Hann var einnig með 2 stolna bolta og 2 fráköst og alls fimmtán framlagsstig.

Martin heldur síðan upp á 26 ára afmælið sitt í dag.

Valencia tók frumkvæðið snemma leiks, var 24-18 yfir eftir fyrsta leikhluta og 44-36 yfir í hálfleik. Bayern minnkaði muninn í þrjú stig í þriðja leikhlutanum, 63-60, en Valencia liðið náði strax aftur tíu stiga forskot, 73-63.

Mike Tobey skoraði 17 stig fyrir Valencia og Bojan Dubljevic var með 15 stig. Umræddur Bojan Dubljevic tróð boltanum einmitt í körfuna eftir fyrrnefnda silkimjúka sendingu frá Martin.

Martin Hermannsson og félagar í Valencia mæta ASVEL Basket frá Frakklandi í úrslitaleik mótsins en það lið kemur frá Lyon og Villeurbanne. Olympiacos og Bayern spila aftur á móti um þriðja sætið.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir úr leiknum og um leið fleiri tilþrif frá Martin þar á meðal körfu sem hann skoraði af harðfylgni og fékk víti að auki.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.