Skoðun

Afi og heilsu­gæslan

Ragnheiður Gunnarsdóttir skrifar

Margir eldri borgarar eru skjólstæðingar fleiri en eins sérfræðilæknis á sama tíma vegna fjölþætts heilsufarsvanda. Sérfræðilæknar sinna sinni sérgrein en þeim er ekki ætlað að hafa þá heildaryfirsýn sem heilsugæslunni er ætlað að hafa yfir alla heilsufarssögu sinna skjólstæðinga.

Við innlögn á sjúkrahús kemur til dæmis of oft í ljós að hægt væri að komast af með færri lyf með betri árangri og færri aukaverkunum ef vel og reglulega væri farið yfir allar lyfjaávísanir viðkomandi sjúklings.

Það kemur líka alltof oft í ljós hve lítið aldraðir og aðstandendur þeirra vita um alla þá góðu og fjölbreyttu þjónustu sem eldri borgarar eiga möguleika á að fá frá heimahjúkrun og félagsþjónustu sveitarfélaganna. Þjónustu sem hjálpar fólki til að búa sem lengst á eigin heimili.

Hafandi starfað lengi og víða við hjúkrun eldri borgara er mín skoðun að ætli heilbrigðiskerfið að veita þessum dýrmæta hópi góða heildræna þjónustu á sem hagkvæmastan hátt, þar með talið fyrirbyggjandi þjónustu, þurfa allir eldri borgarar að vera skráðir á heilsugæslustöð þar sem þeir hafa fastan heilsugæslulækni og geta líka nýtt sér annað starfsfólk heilsugæslunnar.

Og að mínu mati er árleg heimsókn á heilsugæsluna skynsamleg fyrir alla eldri borgara 70 ára og eldri þar sem mældur er blóðþrýstingur og blóðsykur, mæld þyngd og teknar almennar blóðprufur hafi þær ekki verið teknar annars staðar á árinu. Slíkt eftirlit gæti verið staðlað, amk fyrsta heimsókn, en læknir viðkomandi gæti að sjálfsögðu bætt við því sem hann teldi æskilegt í hverju tilviki. Niðurstöðum væri fylgt eftir í viðtali við heilsugæslulækninn sem færi yfir lyfjanotkun og rannsóknaniðurstöður. Í slíku árlegu eftirliti væri líka tækifæri til að kynnast öðru starfsfólki heilsugæslustöðvarinnar. Fá upplýsingar um hvaða þjónustu er hægt að fá frá ríki- og sveitarfélögum í formi heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu, hvíldarinnlagna eða dagdeilda þegar og ef sú staða væri hjá viðkomandi sjúklingi að hann gæti farið að þurfa slíka þjónustu. Einnig hvaða hjálpartæki gætu komið að gagni og hvernig niðurgreiðslu þeirra er háttað. Oft getur reynst aðstandendum mjög erfitt að vekja máls á að þörf sé á aðstoð eða hjálpartækjum inn á heimilið og eðlilegt að slíkt sé kynnt og sótt um á heilsugæslunni. Einnig mætti benda fólki á þjónustu sem hægt er að kaupa af einkafyrirtækjum og nægir þar að nefna lyfjaskömmtun og heimsendingar ýmiss konar.

En hefur heilsugæslan bolmagn í það sem hér er lagt til ? Ef svo er ekki tel ég fjármagni ekki skipt með hagkvæmnina í huga og hvet eldri borgara til að láta á það reyna.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur á Landakoti og hjá Efri ár-öldrunarráðgjöf.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×