Erlent

Kommúnistaflokkurinn þjarmar að einkafyrirtækjum

Samúel Karl Ólason skrifar
Xi Jinping, forseti Kína.
Xi Jinping, forseti Kína. AP/Mark Schiefelbein

Forsvarsmenn Kommúnistaflokks Kína hafa að undanförnu verið að þjarma að einkafyrirtækjum landsins og krafist hollustu frá þeim. Flokkurinn hefur reynt að herða tökin á fyrirtækjum með því að eignast hluta í þeim eða koma útsendurum fyrir í æðstu stöðum þeirra.

Kommúnistaflokkurinn gaf í gær út viðmiðunarreglur um það hvernig einkafyrirtæki eigi að snúa sér varðandi pólitík. Tilefni útgáfunnar var, samkvæmt frétt Reuters, ytri ógnanir gegn Kína, eins og deilur ríkisins við Bandaríkin, og heimsfaraldur nýju kórónuveirunnar.

Þar að auki voru viðmiðunarreglurnar gefnar út vegna áhættu af fjölbreyttari gildum og áhugasviðum frumkvöðla.

Viðmiðunarreglurnar voru birtar af Xinhua fréttaveitunni, sem er í eigu ríkisins. Þar segir að forsvarsmenn einkafyrirtækja verði að haga sér í takt við Kommúnistaflokksins, stefnu hans og reglur.

Einkafyrirtæki eru einnig hvött til að taka þátt í áherslum ríkisins, eins og viðskiptaverkefninu opinbera, Belti og braut. Ríkið myndi bæta viðskiptaumhverfi einkafyrirtækja.

Í frétt Bloomberg segir að Kommúnistaflokkurinn hafi reynt að herða tak sitt á hagkerfi Kína. Um 60 prósent vergrar landsframleiðslu Kína má rekja til einkafyrirtækja og um 80 prósent vinnandi fólks í þéttbýlum vinna hjá einkafyrirtækjum.

Þessi fyrirtæki hafa átt undir högg að sækja að undanförnu. Bæði vegna breyttra áherslna ríkisins í Kína og vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar og viðskiptadeilna Kína og Bandaríkjanna.

Óljósar línur á milli einkafyrirtækja og hins opinbera í Kína er eitt af grundvallaratriðum í deilum Kína og Bandaríkjanna. Ráðamenn í Bandaríkjunum og víðar sjá fyrirtæki eins og Huawei sem tól hins opinbera og þar með Kommúnistaflokks Kína.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×