Fótbolti

Ekki verið neðar á heimslistanum í sjö ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslenska landsliðið er í 41. sæti styrkleikalista FIFA sem var gefinn út í morgun.
Íslenska landsliðið er í 41. sæti styrkleikalista FIFA sem var gefinn út í morgun. Vísir/Hulda Margrét

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta fer niður um tvö sæti á styrkleikalista FIFA og er í 41. sæti hans. Ísland hefur ekki verið neðar á styrkleikalistanum síðan 2013, eða í sjö ár.

Ísland hefur leikið tvo leiki síðan styrkleikalistinn var síðast gefinn út í júlí og tapaði þeim báðum; 0-1 fyrir Englandi og 5-1 fyrir Belgíu sem er enn á toppi listans. 

Englendingar eru í 4. sæti listans. Frakkar eru í 2. sæti og Brasilíumenn í því þriðja. Engin breyting varð á stöðu efstu fjögurra liðanna á listanum.

Rúmenía, sem Ísland mætir í umspili um sæti á EM í næsta mánuði, fer upp um þrjú sæti og er í 34. sæti listans, sjö sætum á undan Íslandi.

Besti árangur Íslands á listanum er 18. sæti sem náðist í febrúar 2018. Síðan þá hafa Íslendingar hrapað niður listann.

Danmörk er efst Norðurlandaþjóðanna, í 16. sæti, tveimur sætum ofar en Svíþjóð. Ísland er þremur sætum fyrir ofan Noreg sem Lars Lagerbäck þjálfar. Norðmenn standa í stað á listanum. Finnland er í 56. sæti listans og Færeyjar í 107. sæti.

Rússar eru hástökkvarar listans að þessu sinni en þeir fara upp um sex sæti.

Listann í heild má sjá með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×