Innlent

Efling segir ASÍ taka þátt í að hvítþvo brot Icelandair

Sylvía Hall skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir segir þátttöku ASÍ í yfirlýsingunni ósigur. 
Sólveig Anna Jónsdóttir segir þátttöku ASÍ í yfirlýsingunni ósigur.  vísir/vilhelm

Stjórn Eflingar hefur samþykkt ályktun þar sem Alþýðusamband Íslands er harðlega gagnrýnt fyrir að taka þátt í sameiginlegri yfirlýsingu með Samtökum atvinnulífsins og Icelandair. Að mati Eflingar er yfirlýsingin hvítþvottur á brotum Icelandair og Samtaka atvinnulífsins gegn vinnumarkaðslöggjöf.

Fjögur félög komu að yfirlýsingunni; Alþýðusamband Íslands, Flugfreyjufélag Íslands, Icelandair og Samtök atvinnulífsins. Þar harma félögin að öllum starfandi flugfreyjum hafi verið sagt upp hjá félaginu í júlí og að það hafi ekki verið í samræmi við „þær góðu samskiptareglur sem aðilar vinnumarkaðarins vilja viðhafa“. Deilum félaganna væri jafnframt lokið með yfirlýsingunni.

Málið var tekið fyrir á stjórnarfundi Eflingar í dag og hefur stjórnin lýst yfir andstöðu við þátttöku Alþýðusambandsins í yfirlýsingunni. Yfirlýsingin veiti „enga lagalega vernd eða tryggingu gegn því að önnur fyrirtæki muni síðar beita sömu aðförum“ og með henni hafi Alþýðusambandið tekið þátt í „tækifærissinnaðri sérhagsmunagæslu“ Icelandair.

Yfirlýsingin sé jafnframt „ósigur í baráttu verkalýðshreyfingarinnar“ gegn ásetningi Samtaka atvinnulífsins um „grafa undan íslenskri vinnumarkaðslöggjöf“.

„Alþýðusamband Íslands átti að draga Icelandair og Samtök atvinnulífsins til fullrar ábyrgðar fyrir Félagsdómi vegna brota þeirra líkt og áður var samþykkt í miðstjórn ASÍ. Þannig hefði verið staðinn sómasamlegur vörður um réttindi launafólks.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×