Íslenski boltinn

Fyrrverandi landsliðskona í fótbolta að ljúka doktorsprófi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir í vináttulandsleik Íslands og Bandaríkjanna 2005.
Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir í vináttulandsleik Íslands og Bandaríkjanna 2005. getty/Victor Decolongon

Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir, fyrrverandi atvinnu- og landsliðskona í fótbolta, ver doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands næsta föstudag.

Ritgerð Ólínu nefnist „Vitrænt mat og endurhæfing ungs fólks eftir geðrof“. Markmið doktorsverkefnisins voru að leggja mat á vitræna getu, líðan og færni í daglegu lífi hjá öllum þeim sem sóttu þjónustu á Laugarási, deild innan Landspítala sem sérhæfir sig í meðferð og endurhæfingu ungs fólks eftir geðrof, á árunum 2015 - 2017, og kanna forspárgildi vitrænna þátta fyrir sjálfsmati og mati aðstandenda á færni í daglegu lífi, (2) að kanna skammtíma- og langtímaáhrif vitrænnar endurhæfingar með félagsskilningsþjálfun (VEF) á vitræna þætti, líðan og færni í daglegu lífi, (3) meta innleiðingu meðferðarinnar með tilliti til hentugleika, áreiðanleika og viðhalds.

Ólína spilaði 70 landsleiki og skoraði tvö mörk á árunum 2003-14. Hún lék með íslenska landsliðinu á EM 2009 og 2013.

Hún hóf ferilinn með Grindavík en gekk í raðir Breiðabliks 2002. Ólína lék með Blikum í fjögur ár og KR í tvö ár.

Ólína lék með Örebro í Svíþjóð á árunum 2009-12 og Chelsea á Englandi 2013. Hún kom svo aftur heim 2013 og gekk í raðir Vals. Ólína lék með Fylki 2015 og sína síðustu leiki á ferlinum með KR 2017. Hún lék alls 148 leiki í efstu deild á Íslandi og skoraði 38 mörk.

Doktorsvörn Ólína fer fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands klukkan 14:00 næsta föstudag. Andmælendur eru Dr. Lisa M. Wu, dósent við Aarhus Institute of Advanced Studies í Danmörku, og Dr. Ragnar Pétur Ólafsson, dósent við Sálfræðideild Háskóla Íslands.

Umsjónarkennari var Dr. Berglind Guðmundsdóttir, prófessor við Læknadeild, og leiðbeinandi Brynja M. Magnúsdóttir, dósent við Háskólann í Reykjavík. Meðleiðbeinandi var Engilbert Sigurðsson, prófessor og forseti Læknadeildar Háskóla Íslands. Auk hans sátu í doktorsnefnd Dr. David L. Roberts, dósent við University of Texas Health Science Center, og Dr. Elizabeth W. Twamley, prófessor við University of California, La Jolla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×