Viðskipti innlent

Íbúðaverð hækkar verulega á milli mánaða

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu heldur áfram að hækka milli mánaða.
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu heldur áfram að hækka milli mánaða. Vísir/Vilhelm

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,8% á milli mánaða í ágúst. Er þetta annar mánuðurinn í röð þar sem hækkunin mælist yfir 0,5%. Þá voru verðhækkanir í sumar talsvert meiri en á sama tíma fyrir ári síðan.

Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans og eru upplýsingarnar byggðar á nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands.

Verð á sérbýli hækkaði um 0,9% milli júlí og ágúst og verð á fjölbýli um 0,7%. Tólf mánaða hækkun íbúðaverðs mælist nú 5,2% og hefur hún ekki verið hærri síðan í janúar í fyrra.

„Sérbýli hefur hækkað stöðugt frá því í apríl og mælist 12 mánaða hækkun nú 4,8%. 12 mánaða hækkun fjölbýlis mælist 5,2%.

Það sem af er ári hefur íbúðaverð að jafnaði hækkað um 3,7% milli ára, sem er talsvert meiri hækkun en gert var ráð fyrir.

Í maí spáðum við því að íbúðaverð myndi nokkurn veginn standa í stað út þetta ár. Annað hefur komið á daginn,“ segir í Hagsjánni.

Þá hafi fasteignamarkaðurinn verið kröftugur í sumar og vaxtalækkanir haft töluverð áhrif á eftirspurn eftir húsnæði:

„Síðastliðna 3 mánuði hefur íbúðaverð hækkað að jafnaði um 0,7% milli mánaða. Í fyrra var sambærileg hækkun 0,3%. Það er því nokkuð ljóst að sumarið í ár var mun kröftugra en sumarið í fyrra, og hafa vaxtalækkanir haft veruleg áhrif á eftirspurn eftir húsnæði.

Ekki fást upplýsingar um það hversu mörgum kaupsamningum var þinglýst í ágústmánuði og þar með hvert umfang viðskipta var.

Samkvæmt frétt á vef Þjóðskrár, frestast birting þeirra upplýsinga vegna tafar á skönnun skjala við þinglýsingu hjá sýslumannsembættinu á höfuðborgarsvæðinu.

Vísbendingar eru þó um að viðskipti hafi verið nokkuð mörg ef marka má upplýsingar úr nýjustu mánaðarskýrslu Húsnæðis-og mannvirkjastofnunar.

Þar kemur fram að ágúst hafi verið þriðji mánuðurinn í röð þar sem fjöldi íbúða sem teknar voru úr birtingu af fasteignir.is var hærri á sambærilegum tíma fyrir ári síðan. Hvort það endurspeglist í tölum Þjóðskrár um þinglýsta kaupsamninga á eftir að koma í ljós.“

Hagsjá Landsbankans má lesa í heild sinni hér.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×