Lífið

Syngur um hve lífið er dýrmætt eftir að læknir kom auga á váboða í golfi

Birgir Olgeirsson skrifar
Herbert Guðmundsson, söngvari, hefur sent frá sér nýtt lag sem heitir Lífið.
Herbert Guðmundsson, söngvari, hefur sent frá sér nýtt lag sem heitir Lífið.

Herbert Guðmundsson gaf nýverið út lagið Lífið sem hefur fengið talsverða spilun á helstu útvarpsstöðvum landsins. Hebbi, eins og hann er jafnan kallaður, var heldur betur minntur á hve dýrmætt lífið er á dögunum þegar hjartalæknir var með honum í golfi í sumar og tók eftir að því að ekki var allt með felldu.

Hebbi hafði fundið fyrir seiðingi í brjóstkassanum. Hann taldi þetta vera merki um stífleika og hafði reynt að teygja það úr sér. Hann harkaði verkinn af sér og hélt áfram sínu daglega lífi. Þegar hann var staddur í golfi á Urriðavelli Golfklúbbsins Odds hitti hann fyrir hjartalækninn Ásgeir Jónsson, sem einnig er kylfingur.

Hebbi lýsir verknum fyrir Ásgeiri sem svarar um hæl að honum lítist ekki á blikunum og boðar Hebba í skoðun.

Í ljós kom að Hebbi var með þrengingu í einni af kransaæðunum sem var lagfært með hjartaþræðingu.

„Ég er eins og nýsleginn túskildingurinn í dag,“ segir söngvarinn í samtali við Vísi. „Hefði ég ekki hitt Ásgeir lækni í golfi þá hefði þetta mögulega farið mun verr. Ég er honum alveg ótrúlega þakklátur,“ bætir Hebbi við.

Hann hefur skemmt Íslendingum til fjölda ára og slær hvergi slöku við. Í dag má heyra hann syngja um hversu verðmætt lífið er í nýjasta lagi sínu.

Lagið vann hann með syni sínum Svani en textinn er eftir Friðrik Sturluson sem margir kannast við úr hljómsveitinni Sálinni hans Jóns míns.

Sonur hans Svanur leikur á hljómborð í laginu. Vignir Snær leikur og gítar og stjórnar upptökum, Róbert Þórhallsson sér um bassaleikinn, Magnús Magnússon slær taktinn á trommur, Kristinn Svavarsson blæs í saxafón og Pétur Örn Guðmundsson syngur bakraddir.

Lagið má heyra hér fyrir neðan: 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×