Golf

Patrick Reed leiðir eftir tvo hringi á US Open

Ísak Hallmundarson skrifar
Patrick Reed með driverinn á lofti í gær.
Patrick Reed með driverinn á lofti í gær. getty/Jamie Squire

Bandaríkjamaðurinn Patrick Reed er í forystu eftir fyrstu tvo hringina á US Open, sem er eitt af fjórum árlegum risamótum í golfi.

Reed spilaði á pari vallarins í gær og er samtals á fjórum höggum undir pari. Hann hefur unnið eitt risamót á ferlinum hingað til, það var þegar hann vann Masters árið 2018.

Bryson DeChambeau er í öðru sæti á þremur höggum undir pari og Justin Thomas, Harris English og Rafa Cabrera Bello deila þriðja sætinu á tveimur höggum undir pari.

Eftir góðan fyrsta hring stimplaði Rory McIlroy sig út úr toppbaráttunni í bili, en hann lék hringinn í gær á sex höggum yfir pari og er samtals á þremur höggum yfir pari eftir fyrstu tvo hringina í 22. sæti.

Tiger Woods var langt frá því að komast í gegnum niðurskurðinn, hann lék hringina tvo hörmulega, var á sjö höggum yfir pari í gær og samtals á tíu höggum yfir pari. Niðurskurðurinn miðaðist við sex högg yfir par.

Bein útsending frá þriðja hringnum hefst kl. 16:00 á Stöð 2 Golf í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×