Íslenski boltinn

Arnar: Setti liðsfélagana í erfiða stöðu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar á hliðarlínunni í dag.
Arnar á hliðarlínunni í dag. vísir/vilhelm

Arnar Grétarsson, þjálfari KA, var mátulega sáttur eftir 1-1 jafnteflið við Fjölni í dag. KA var manni færri í 55 mínútur en kom til baka, jafnaði og náði í stig.

„Rauð spjöld og mörk breyta leikjum og að lenda undir og vera manni færri var ansi brött brekka. Við náðum stigi en í stöðunni 1-1 fengum við dauðafæri. Mér fannst við spila seinni hálfleikinn gríðarlega vel og á tíma leit út fyrir að við værum ellefu á móti tíu,“ sagði Arnar í samtali við Vísi eftir leik.

„Ég er mjög sáttur með frammistöðu míns liðs, sérstaklega í seinni hálfleik og í upphafi leiks. Við ætluðum að sækja þrjú stig en í hálfleik hefðum við sætt okkur við eitt stig. En eftir á hefðum við viljað meira.“

Mikkel Qvist fékk á sig vítaspyrnu á 34. mínútu og var rekinn af velli fyrir að fleygja Sigurpáli Melberg Pálssyni til jarðar. Jón Gísli Ström skoraði úr vítinu og kom Fjölni yfir.

„Þetta er svekkjandi. Það var búið að skalla boltann í burtu. Menn eru að gefa tilefni til að flauta á sig og það er ekki gott. Þetta er mjög svekkjandi og hann setti liðsfélagana í erfiða stöðu,“ sagði Arnar.

KA er nú í 8. sæti deildarinnar með fimmtán stig. Arnar vill að koma KA-mönnum ofar í töfluna.

„Við viljum meira. Við ætluðum okkur að taka þrjú stig hérna í dag. Markmiðið er að klífa töfluna og sjá hvert við komumst. Það er bara næsti leikur, sem er erfiður leikur gegn HK á heimavelli, og markmiðið þar er þrjú stig. Ef við náum því erum við komnir í betri stöðu,“ sagði Arnar að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×