Erlent

Dómari stöðvar bann Banda­ríkja­stjórnar á WeChat

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Bandaríkjastjórn hefur gefið út tilskipun um bann á kínversku miðlunum TikTok og WeChat. Það virðist ekki ætla að ganga eftir.
Bandaríkjastjórn hefur gefið út tilskipun um bann á kínversku miðlunum TikTok og WeChat. Það virðist ekki ætla að ganga eftir. Getty/Sheldon Cooper

Bandarískur dómari hefur sett lögbann á tilraunir bandarískra yfirvalda til að banna kínverska samskiptamiðilinn WeChat. Til stendur að ekki verði hægt að hlaða forritinu niður í Bandaríkjunum frá miðnætti í dag og verður því ekki lengur í notkun þar í landi.

Laurel Beeler, dómari í Kaliforníu, sagði að bannið vekti upp margar alvarlegar spurningar í sambandi við fyrstu viðbótargrein stjórnarskrár Bandaríkjanna, sem tryggir tjáningarfrelsi.

Donald Trump Bandaríkjaforseti gaf í sumar út tilskipun um að banna ætti kínversku samfélagsmiðlana WeChat og TikTok ef ekki yrðu breytingar á rekstri þeirra. Þá hafa yfirvöld haldið því fram að forritin ógni þjóðaröryggi Bandaríkjanna og að þau selji, eða áframsendi persónuupplýsingar notenda sinna á kínversk stjórnvöld.

TikTok tilkynnti í dag að samningar hafi náðst við bandarísku fyrirtækin Oracle og Walmart um að þau myndu kaupa hlut í miðlinum. Oracle mun kaupa 12,5 prósenta hlut og Walmart 7,5 prósenta. Þá munu allar upplýsingar um notendur forritsins vera geymdar í gagnageymslum Oracle. Forritið mun því verða starfrækt áfram í Bandaríkjunum.

Hefðu áform bandarískra stjórnvalda náð fram að fara hefðu um nítján milljón bandarískir notendur WeChat ekki getað notað forritið áfram til samskipta sín á milli. Forritið er notað bæði til þess að senda skilaboð og til myndsímtala og býður það einnig upp á millifærslur.


Tengdar fréttir

Trump gefur TikTok blessun sína

Kínverska fyrirtækið ByteDance, eigandi samfélagsmiðilsins TikTok hefur óskað eftir því að virði TikTok verði metið á 60 milljarða Bandaríkjadala, eða um 8.178 milljarða íslenskra króna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×