Lífið

Schitt's Creek setti met á Emmy-verðlaunahátíðinni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Feðgarnir Eugene Levy og Daniel Levy taka hér við verðlaunum fyrir besta gamanþáttinn, Schitt's Creek.
Feðgarnir Eugene Levy og Daniel Levy taka hér við verðlaunum fyrir besta gamanþáttinn, Schitt's Creek. Vísir/AP

Schitt‘s Creek, Succession og Watchmen voru sigurvegarar Emmy-sjónvarpsverðlaunahátíðarinnar sem haldin var í nótt.

Hátíðin var með óvenjulegu sniði vegna kórónuveirufaraldursins og var í raun haldin rafrænt þannig að sjónvarpsstjörnur og verðlaunahafar voru heima hjá sér í stað þess að mæta, líkt og venjulega, á viðburðinn í eigin persónu.

Kanadíski gamanþátturinn Schitt‘s Creek setti nýtt met með því að vinna níu verðlaun sem engum gamanþætti hefur tekist áður.

Þátturinn var ekki aðeins valinn besti gamanþátturinn heldur hrepptu leikarar þáttarins einnig helstu verðlaun kvöldsins fyrir leik í gamanþáttum.

Catherine O‘Hara og Eugene Levy unnu þannig fyrir bestan leik í aðalhlutverki og þau Annie Murphy og Daniel Levy fyrir bestan leik í aukahlutverki.

Succession var valinn besti dramaþátturinn og Jeremy Strong var valinn besti leikari í aðalhlutverki fyrir leik sinn í þáttunum.

Leikkonan Zendaya hlaut Emmy-verðlaunin sem besta leikkona í aðalhlutverki í dramaþætti fyrir hlutverk sitt í Euphoria. Hún er aðeins 24 ára gömul og er yngsta leikkonan til þess að fá verðlaunin.

Watchmen hreppti svo hnossið sem besta staka sjónvarpsþáttaröðin og leikarar úr þættinum, þau Regina King og Yahya Abdul-Mateen II, voru valin bestu leikarar í aðalhlutverki í stakri sjónvarpsþáttaröð eða sjónvarpsmynd.

Hér má sjá lista yfir alla verðlaunahafana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×