Golf

Aldrei leikið betra golf eftir að hann bætti á sig 20 kg af vöðvum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fyrir og eftir.
Fyrir og eftir. vísir/getty

Bryson DeChambeau vann sitt fyrsta risamót á ferlinum þegar hann hrósaði sigri á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi í gær.

Mótið fór fram á hinum mjög svo erfiða Winged Foot velli í New York. Það truflaði DeChambeau þó ekki neitt. Hann lék á sex höggum undir pari og var eini kylfingurinn sem lék undir pari á Opna bandaríska. Næstur var Matthew Wolff sem lék á pari.

DeChambeau hefur leikið sérlega vel eftir að keppni hófst á ný eftir hléið vegna kórónuveirufaraldursins og var m.a. í 4. sæti á PGA-meistaramótinu. Fyrir hléið hafði hann aldrei verið meðal tíu efstu á risamóti.

Bandaríkjamaðurinn hefur farið nokkuð óhefðbundna leið til að bæta árangur sinn á golfvellinum. Hann hefur nefnilega bætt á sig tæplega 20 kílóum síðasta árið og lítur út eins og vaxtarræktarkappi. DeChambeau borðar 3.000-3.500 kaloríur á dag, þar af eru 400 grömm af próteini.

Þessi breyting hefur skilað sér í lengri höggum hjá DeChambeau. Á síðasta tímabili var hann högglengstur allra á PGA-mótaröðinni.

Þetta hefur þó ekki komið niður á stutta spilinu hjá DeChambeau. Hann var gríðarlega yfirvegaður á lokadegi Opna bandaríska í gær þar sem hann lék á þremur höggum undir pari. 

Á meðan missti Wolff, sem var með forystu fyrir lokadaginn, móðinn og lék á fimm höggum yfir pari. DeChambeau tapaði ekki höggi á síðustu níu holunum og fékk aðeins einn skolla í gær.

Hann tileinkaði fjölskyldu sinni sigurinn á Opna bandaríska. „Það komu mjög erfiðir tímar en þau vildu alltaf það besta fyrir mig og gáfu mér tækifæri til að spila golf, æfa mig og verða betri. Þetta er fyrir foreldra mína, fyrir allt liðið mitt. Allt blóðið, svitinn og tárin sem við lögðum í þetta skiptir öllu fyrir mig,“ sagði hinn 27 ára DeChambeau.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×