Erlent

Sprengja úr síðari heimsstyrjöld varð tveimur að bana

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Honiara, höfuðborg Salómonseyja.
Frá Honiara, höfuðborg Salómonseyja. Vísir/Getty

Tveir sprengjusérfræðingar létust þegar sprengja frá síðari heimsstyrjöldinni sprakk á Salómanseyjum í Kyrrahafi í gær. Mennirnir tveir unnu að því að farga ósprungnum sprengjum á vegum norskra hjálparsamtaka.

Sprengjan sprakk í íbúðarhverfi í Honiara, höfuðborg Salómanseyja, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Bretinn Stephen Atkinson og Ástralinn Trent Lee létust en þeir unnu báðir fyrir Aðstoð norsku þjóðarinnar (NPA). Samtökin segja að þeir hafi unnið að smíða gagnagrunns um sprengjuleifar úr síðari heimsstyrjöld en þúsundir ósprunginna sprengna eru sagðar á eyjunum. Harðir bardagar fóru fram á milli Japana og Bandaríkjamanna á Guadalcanal, eyjunni Honiara stendur á.

Per Nergård, aðstoðarframkvæmdastjóri NPA, segir að um hörmulegt slys hafi verið að ræða. Rannsóknar sé þörf til að komast að því hvað leiddi til láts mannanna tveggja.

AP-fréttastofan hefur eftir lögreglunni á Salómonseyjum að sprengjan hafi sprungið á skrifstofu hjálparsamtakanna í höfuðborginni. Rannsókn standi enn yfir en lögregla telji að mennirnir hafi verið með nokkrar ósprungnar sprengjur á skrifstofunni og hafi mögulega unnið að því að gera þær óvirkar.

Unnið er að því að hreinsa upp sprengjuleifar í Honiara í aðdraganda Kyrrahafsleikanna sem stendur til að halda þar árið 2023.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×