Sport

Fær mikið lof fyrir að stoppa fyrir framan marklínuna og fórna verðlaunasæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Méntrida er öflugur þríþrautarmaður og hann sýndi mikinn þroska þrátt fyrir ungan aldur.
Diego Méntrida er öflugur þríþrautarmaður og hann sýndi mikinn þroska þrátt fyrir ungan aldur. Mynd/Instagram

Spænski þríþrautarkappinn Diego Méntrida hefur fengið mikið hrós fyrir það sem hann gerði í Santander þríþrautarkeppninni á dögunum. Honum þótti það sjálfsagt en það er langt frá því að allir aðrir myndu gera slíkt hið sama.

Diego Méntrida sýndi mikinn íþróttaanda eftir kollegi hann hafði gert klaufaleg en jafnframt mjög afdrifarík mistök á endasprettinum.

Í síðustu beygjunni og aðeins nokkrum metrum frá marklínunni þá ruglaðist Bretinn James Teagle eitthvað í ríminu. Teagle tók vitlausa beygju og fyrir vikið þá komst umræddur Diego Méntrida fram úr honum.

Í stað þess að hlaupa í markið og tryggja sér þriðja sætið þá stoppaði Diego Méntrida og leyfði James Teagle að ná sér og þar með að ná bronsinu.

James Teagle var að sjálfsögðu mjög þakklátur og hefur síðan vakið athygli á íþróttaanda Spánverjans á samfélagsmiðlum. Diego Méntrida er bara 21 árs gamall og var síðan að sýna mikinn þroska þrátt fyrir ungan aldur.

James Teagle var ekki sá eini sem tók eftir því sem Diego Méntrida gerði. Hann fékk mikið lof í spænskum fjölmiðlum. Diego Méntrida hefur seinna sagt frá sinni hlið og hann vildi ekki gera of mikið úr þessu.

„Hann átti þetta skilið,“ sagði Diego Méntrida um atvikið.

„Þetta er eitthvað sem foreldrarnir mínir og félagið mitt kenndu mér þegar ég var barn. Frá mínum bæjardyrum er þetta bara það eðlilegasta að gera í stöðunni. Þegar ég sá að hann hafði misst af beygjunni þá stoppaði ég bara. James átti skilið að fá þennan verðlaunapening,“ sagði Méntrida.

Það má sjá atvikið hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×