Handbolti

Þórsarar fá örvhenta skyttu frá landi innan EES

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þór vann Grill 66 deildina á síðasta tímabili og vann sér sæti í Olís-deildinni.
Þór vann Grill 66 deildina á síðasta tímabili og vann sér sæti í Olís-deildinni. MYND/ÞÓR

Handknattleiksdeild Þórs hefur samið við Rúmenann Viorel Bosca um að leika með liðinu í vetur.

Bosca er 22 ára örvhent skytta. Hann hefur lengst af leikið með Baia Mare í heimalandinu en einnig Hubo Initia Hasselt í Belgíu. Bosca, sem hefur leikið fyrir yngri landslið Rúmeníu, er 1,92 metrar á hæð og vegur 92 kíló.

Fyrir tímabilið samdi Þór við serbnesku skyttuna Vuk Perovic. Hann kom hins vegar aldrei til landsins þar sem lið mega aðeins hafa tvo leikmenn frá löndum utan evrópska efnahagssvæðisins í leikmannahópi sínum. Úkraínumaðurinn Ihor Kopyshynskyi og Serbinn Jovan Kukobat fylla þann kvóta hjá Þór og því var ekki pláss fyrir Perovic.

Rúmenía er innan EES og því er ekkert vandamál fyrir Þórsara að fá leikheimild fyrir Bosca. Vonast er til að hann leiki sinn fyrsta leik fyrir Þór gegn ÍBV í 4. umferð Olís-deildarinnar 4. október. Næsti leikur Þórsara er gegn ÍR-ingum á fimmtudaginn.

Þór hefur tapað báðum leikjum sínum í Olís-deildinni á tímabilinu. Þór tapaði fyrir Aftureldingu, 24-22, í 1. umferðinni og 19-24 fyrir FH í 2. umferðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×