Erlent

Xi til­kynnti ó­vænt um að Kína stefni að kol­efnis­hlut­leysi 2060

Kjartan Kjartansson skrifar
Xi Jinping, forseti Kína, sendi allsherjarþinginu myndbandsávarp. Þar tilkynnti hann um metnaðarfyllri loftslagsmarkmið Kínverja.
Xi Jinping, forseti Kína, sendi allsherjarþinginu myndbandsávarp. Þar tilkynnti hann um metnaðarfyllri loftslagsmarkmið Kínverja. AP/UNTV

Kínverjar ætla að stefna að því að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2060 til að draga úr hættunni á verstu afleiðingum loftslagsbreytinga. Xi Jinping, forseti Kína, tilkynnti þetta óvænt í ávarpi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Kína er stærsti losandi gróðurhúsalofttegunda sem valda hnattrænni hlýnun í heimi.

Gangi áform kommúnistastjórnarinnar í Beijing eftir nær losun Kína hámarki fyrir árið 2030. Kínverskt samfélag verði svo orðið kolefnishlutlaust fyrir árið 2060. Áður höfðu kínversk stjórnvöld talað um að losun toppaði í síðasta lagi 2030 en lítið vilja gefa uppi um lengri tíma skuldbindingar.

Um 28% heildarlosunar mannkyns á gróðurhúsalofttegundum fer fram í Kína. Losunin þar jókst árið 2018 og 2019, ólíkt þróuninni í sumum vestrænum ríkjum.

Á allsherjarþinginu hvatti Xi heimsbyggðina til þess að ná vopnum sínum eftir efnahagsáfall kórónuveirufaraldursins á vistvænan hátt, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Ekki kom þá fram í máli Xi hvernig Kína ætlaði sér að ná kolefnishlutleysi eða hvernig ríkisstjórn hans skilgreindi það.

„Kína mun uppfæra ætluð landsmarkmið sín [gagnvart Parísarsamkomulaginu] með því að taka upp sterka stefnu og aðgerðir,“ sagði Xi.

Ræða Xi kom beint í kjölfar ávarps Donalds Trump Bandaríkjaforseta þar sem hann skaut föstum skotum á Kína, meðal annars vegna „hömlulausrar mengunar“. Trump ætlar að draga Bandaríkin, annan stærsta losanda heims, úr Parísarsamkomulaginu og ríkisstjórn hans hefur afnumið og útvatnað fyrirhugaðar loftslags- og umhverfisaðgerðir.

Li Shuo, sérfræðingur Grænfriðunga í loftslagsstefnu Kínverja, segir breska ríkisútvarpinu BBC að útspil Xi, beint í kjölfar ræðu Trump, hafi verið úthugsað.

„Það sýnir stöðugan áhuga Xi á að notfæra sér loftslagsstefnu í alþjóðapólitískum tilgangi,“ segir hann.

Samskipti Kína og Bandaríkjanna hafa farið versnandi í stjórnartíð Trump. Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, varaði við því í gær að nýtt kalt stríð gæti verið yfirvofandi.


Tengdar fréttir

Varaði við köldu stríði Kína og Bandaríkjanna

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, varaði við hættunni á að nýtt kalt stríð brytist út á milli Bandaríkjanna og Kína í ávarpi sínu á fyrsta allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem fer fram í fjarfundi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×