Íslenski boltinn

„Erum þannig gerðir í FH að við stöndum við heiðurs­manna­sam­komu­lag“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Logi Ólafsson í viðtalinu í dag.
Logi Ólafsson í viðtalinu í dag. vísir/s2

Logi Ólafsson, þjálfari FH, segir að ef liðið ætlar sér að berjast um Íslandsmeistaratitilinn þurfi liðið þrjú stig gegn Val á morgun.

FH og Valur mætast í Kaplakrikanum klukkan 16.15 en Valsmenn eru átta stigum á undan FH sem er í öðru sætinu. Fimleikafélagið á þó leik til góða.

„Ef að Valur vinnur leikinn á morgun þá verður býsna erfitt að ná þeim,“ sagði Logi.

Valur rúllaði yfir Stjörnuna fyrr í vikunni og aðspurður hvað FH þarf að varast svaraði Logi:

„Við þurfum að spila góðan varnarleik. Valsmenn eru með „komplett“ lið. Þeir eru góðir í flestum atriðum leiksins.“

„Þeir geta spilað aftarlega og beitt skyndisóknum og þeir geta spilað gegn skipulagri vörn. Við þurfum að vera vakandi allan tímann og ekki gefa þeim neinn frið inn á okkar eigin vallarhelmingi.“

Ólafur Karl Finsen mun ekki spila með FH í leiknum á morgun og Logi segir að þar sé heiðursmannasamkomulag í gildi.

„Það er heiðursmannasamkomulag á milli félaganna um það að hann leiki ekki á móti Val. Við erum þannig gerðir í FH að við stöndum við heiðursmannasamkomulag,“ sagði Logi.

Logi staðfestir einnig að Atli Guðnason spili ekki á morgun.

Klippa: Sportpakkinn - Logi Ólafsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×