Körfubolti

Tap hjá deildar­meisturunum og Kefla­vík niður­lægði KR

Anton Ingi Leifsson skrifar
Breiðablik vann góðan sigur í kvöld.
Breiðablik vann góðan sigur í kvöld. vísir/bára

Breiðablik gerði sér lítið fyrir og vann fjögurra stiga sigur á deildarmeisturum Vals í kvöld, 71-67, í fyrstu umferð Dominos-deildar kvenna.

Leikurinn var ansi jafn og skemmtilegur nær allan leikinn. Breiðablik var einu stigi yfir í hálfleik, 37-36, og hélt út eftir rosalegar lokamínútur.

Jessie Coera var stigahæst hjá Breiðabliki með 25 stig. Isabella Ósk Sigurðardóttir gerði tólf stig og tók átján fráköst.

Hildur Björg Kjartansdóttir, sem kom frá KR í sumar, var stigahæst hjá Val með sextán stig. Hún tók einnig tólf fráköst. Dagbjört Dögg Karlsdóttir gerði fjórtán stig.

Nýliðar Fjölnis rúlluðu yfir Snæfell á heimavelli. Lokatölur urðu 91-60 eftir að Fjölnir voru 39-31 yfir í hálfleik þrátt fyrir að Snæfell hafi verið 21-10 yfir eftir fyrsta leikhlutann.

Fiona Eilish O'Dwyer gerði tuttugu stig fyrir Fjölni en hún tók að auki sextán fráköst. Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir skoraði átján stig.

Iva Georgieva var stigahæst hjá Snæfell með átján stig. Anna Soffía Lárusdóttir gerði fjórtán stig og tók fjórtán fráköst en það er ljóst að það er langur vetur framundan í Stykkishólmi.

Keflavík rúllaði yfir KR í Reykjanesbæ. Keflavík vann með 42 stiga mun, 114-72, eftir að hafa verið 55-34 yfir í leikhlé.

Keflvíkingar gáfu ekki tommu eftir í síðari hálfleik og unnu alla fjóra leikhluta kvöldsins.

Daniela Wallen Morillo gerði 37 stig fyrir Keflavík. Að auki tók hún ellefu fráköst og gaf níu stoðsendingar. Anna Ingunn Svansdóttir kom næst með sautján stig.

Annika Holopainen var í sérflokki hjá KR. Hún gerði 43 stig og tók tíu fráköst. Hún skoraði þar af leiðandi tæplega 60% af stigum KR í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×