Innlent

220 nem­endur geta ekki tekið sam­ræmdu prófin vegna veirunnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Melaskóla. Nokkrir nemendur í 7. bekk skólans hafa þurft að fara í sóttkví á síðustu dögum.
Frá Melaskóla. Nokkrir nemendur í 7. bekk skólans hafa þurft að fara í sóttkví á síðustu dögum. Vísir/Vilhelm

220 nemendur 7. bekkja í fimm skólum geta ekki þreytt samræmd könnunarpróf vegna kórónuveirunnar. Nemendunum er boðið að taka prófin á varaprófdögum dagana 12. og 13. október. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Menntamálastofnun.

Samræmdu prófin í 7. bekk hófust í dag. Um 4.300 nemendur í 155 skólum þreyta próf í íslensku í dag. Könnunarpróf í stærðfræði fer fram á morgun. Samræmd próf verða svo lögð fyrir 4. bekk í næstu viku.

Framkvæmd prófanna hefur gengið vel, að því er segir í tilkynningu Menntamálastofnunar. Hluti nemenda í 7. bekk hafi þó ekki átt kost á að þreyta prófin í dag vegna kórónuveirunnar, eða 220 nemendur í fimm skólum. Ætla má að flestir umræddra nemenda séu í sóttkví en talsvert hefur borið á því að starfsfólk og nemendur í grunnskólum hafi greinst með veiruna undanfarna daga.

Nemendum sem ekki geta þreytt prófin nú er boðið að taka þau á varaprófdögum 12. og 13. október. Ef skólar geta ekki haldið próf á varaprófdögum verða nýir prófdagar ákveðnir.

„Það er skiljanlegt að foreldrar og nemendur hafi áhyggjur af stöðunni en Menntamálastofnun hefur lagt mikið upp úr því að eiga gott samtal við alla aðila skólasamfélagsins og unnið að lausnum í samráði við þá. Þá hefur stofnunin verið í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið til að undirbúa fyrirlögnina sem best,“ segir í tilkynningu Menntamálastofnunar.


Tengdar fréttir

Grípa til aðgerða vegna fjölda smita í Stykkishólmi

Sjö eru nú í einangrun með kórónuveiruna í Stykkishólmi en á Vesturlandi öllu eru ellefu með veiruna. Alls voru 18 í sóttkví í Stykkishólmi í gær en búist er við töluverðri fjölgun fólks í sóttkví eftir því sem störfum smitrakningarteymis vindur fram í dag. Umfangsmeiri skimun er í nú í undirbúningi í Stykkishólmi.

Alls 320 grunn­skóla­nemar í sótt­kví á höfuð­borgar­svæðinu

Skóla- og frístundasvið hefur ekki farið varhluta af kórónuveirufaraldrinum sem geisar en í skriflegu svari frá Helga Grímssyni, formanni skóla- og frístundasviðs kemur fram að 320 nemendur og 43 starfsmenn í alls fimm grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu hafi verið í sóttkví í gær vegna kórónuveirusmits sem kom upp í skólunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×