Erlent

Stöðvaði sölu á „endurunnum“ smokkum

Kjartan Kjartansson skrifar
Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Getty

Lögreglan í Víetnam lagði hald á hundruð þúsunda notaðra smokka sem voru hreinsaðir og seldir sem nýir. Ekki liggur fyrir hversu margir notaðar smokkar höfðu þegar verið seldir.

Tugir stórra plastpoka með notuðum smokkum fundust í verksmiðju í Binh Duong-héraði í sunnanverðu Víetnam á laugardag. Að sögn lögreglu vógu pokarnir um 360 kíló og áætlar hún því að um 345.000 smokkar hafi verið í þeim.

Reuters-fréttastofan segir að kona sem lögreglan handtók hafi sagt að notuðu smokkarnir hafi fyrst verið soðnir í vatni, svo þurrkaðir og látnir ná fyrri lögun á gervilim úr viði. Smokkunum var svo pakkað inn og þeir seldir sem nýir. Eigandi verksmiðjunnar segir að þeim hafi borist sending af notuðum smokkum frá óþekktum aðila í hverjum mánuði.

Húsleitin var gerð eftir að íbúi í nágrenni vöruhússins sendi lögreglunni ábendingu, að sögn AP-fréttastofunnar. Lögreglan leitar enn fólks sem það telur tengjast málinu. Heilbrigðisyfirvöld á svæðinu segja að heilsu þeirra sem nota notaða smokka sé stefnt í mikla hættu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×