Íslenski boltinn

KA-menn farnir að nálgast met jafntefliskónga Gumma Ben

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásgeir Sigurgeirsson fagnar jöfnunarmarki á móti Fjölni. Það var níunda jafntefli liðsins í sumar en það tíunda bættist við í gærkvöldi.
Ásgeir Sigurgeirsson fagnar jöfnunarmarki á móti Fjölni. Það var níunda jafntefli liðsins í sumar en það tíunda bættist við í gærkvöldi. Vísir/Vilhelm

Það er farið að vera óhætt að setja „x“ á leiki KA-manna á Lengjunni. Jafnteflin hrannast upp þessa dagana og KA-menn eru nú aðeins tveimur jafnteflum frá því að jafna metið.

KA-liðið hefur gert jafntefli í tíu af fimmtán leikjum sínum eða 67 prósent leikja sinna.

Aðeins tvö lið hafa gert fleiri jafntefli á einu tímabili í efstu deild á Íslandi. KR-ingar gerðu 11 jafntefli sumarið og áttu metið í 32 ár eða þar til að Blikarnir gerðu enn betur.

Metið er orðið sex ára gamalt en það er frá sumrin 2014. Breiðabliksliðið gerði þá tólf jafntefli í leikjum sínum.

Ólafur Kristjánsson stýrði Blikaliðinu í sex fyrstu leikjunum en aðstoðarþjálfarinn hans, Guðmundur Benediktsson, tók þá við liðinu því Ólafur gerðist þjálfari danska liðsins Nordsjælland.

Blikarnir gerðu fjögur jafntefli í sex leikjum undir stjórn Ólafs og átta jafntefli í sextán leikjum undir stjórn Guðmundar.

Arnar Grétarsson tók við KA-liðinu um miðjan júlí og síðan hefur liðið aðeins tapað einum leik og það var á móti toppliði Vals á útivelli. Stigin eru samt færri en sú tölfræði segir til um því KA var í gær að gera sitt sjöunda jafntefli í tíu leikjum undir stjórn Arnars.

KA-menn hafa heldur ekki tapað heimaleik í Pepsi Max deildinni í sumar en sigurleikirnir eru samt bara tveir. Sjö af níu heimaleikjum liðsins hafa endað með jafntefli.

Jafnteflið á móti HK var einnig fimmta jafntefli KA-manna í síðustu sex leikjum.

Metið ætti að vera í hættu því KA-liðið á enn eftir að spila sjö deildarleiki á tímabilinu. Liðið hefur þegar gert jafntefli í 70 prósent leikja sinna undir stjórn Arnars sem ættu að þýða að minnsta kosti fjögur jafntefli til viðbótar og nýtt met.

Nú er bara stóra spurningin hvort jafntefliskóngar Gumma Ben muni missa titilinn í mótslok.

  • Flest jafntefli í sögu efstu deildar karla
  • 12 - Breiðablik 2014 (22 leikir)
  • 11 - KR 1982 (18 leikir)
  • 11 - Grindavík 2019 (22 leikir)
  • 10 - KA 2020 (15 leikir, 7 leikir eftir)
  • 10 - KR 1983 (18 leikir)
  • 10 - Stjarnan 2012 (22 leikir)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×