Íslenski boltinn

Íslandsmeistarar verða krýndir

Sindri Sverrisson skrifar
Valsmenn eru afar sigurstranglegir í Pepsi Max-deild karla eftir sigurinn gegn FH í toppslag í gær.
Valsmenn eru afar sigurstranglegir í Pepsi Max-deild karla eftir sigurinn gegn FH í toppslag í gær. VÍSIR/VILHELM

Nú er búið að spila nógu marga leiki í Pepsi Max-deildum karla og kvenna til þess að Íslandsmeistarar í fótbolta verði krýndir í ár.

Knattspyrnusamband Íslands setti sérstakar reglur í sumar vegna kórónuveirufaraldursins. Þar kom fram að Íslandsmótinu yrði að vera lokið 1. desember, og að spila þyrfti 2/3 hluta leikja til þess að staða í viðkomandi deild teldist gild. Ef ekki tækist að spila allt mótið færi þá lokastaðan eftir meðalstigafjölda í leik.

Eftir að heil umferð var leikin í Pepsi Max-deild karla í gær hafa verið spilaðir 92 leikir í deildinni í sumar, af þeim 132 leikjum sem mótið telur. Spila þurfti að minnsta kosti 88 leiki til að mótið teldist gilt. Þó að mótið hafi hafist seinna en ella, og dregist á langinn vegna keppnishlés, af völdum faraldursins, er því búið að spila nógu marga leiki.

Valur er líklegastur til að landa titlinum með ellefu stiga forskot á toppi Pepsi Max-deildar karla eftir 16 leiki af 22 en FH, sem er í 2. sæti, á þó einn leik til góða. Fjölnir og Grótta hefðu getað haldið sér uppi ef mótið hefði ekki talið en eru nú afar líkleg til að kveðja og fara niður í Lengjudeildina.

Titilbaráttan er afar hörð í Pepsi Max-deild kvenna þar sem Valur er með eins stigs forskot á Breiðablik sem á leik til góða. Liðin mætast á Hlíðarenda eftir viku. Þó að sóttkvíarmál hafi sett mikið mark á deildina, sérstaklega á KR sem hefur leikið 2-3 leikjum færra en önnur lið, hafa verið leiknir nógu margir leikir, og einni umferð betur, til að mótið teljist gilt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×