Enski boltinn

Jürgen Klopp lenti upp á kant við Roy Keane í beinni á Sky Sports

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var ekkert alltof brosmildur í viðtalinu á Sky Sports eftir leikinn.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var ekkert alltof brosmildur í viðtalinu á Sky Sports eftir leikinn. Getty/Laurence Griffiths

Jürgen Klopp hélt að Roy Keane hefði verið að horfa á annan leik en gagnrýni Keane á Liverpool liðið í gær fór ekki alltof vel í knattspyrnustjóra Englandsmeistaranna.

Roy Keane og Jürgen Klopp voru ekki alveg sammála um frammistöðu Liverpool í sigrinum á Arsenal í gær og það hitnaði aðeins í kolunum í beinni útsendingu á Sky Sports.

Jürgen Klopp kom í viðtal á Sky Sports í beinni útsendingu eftir 3-1 sigur Liverpool á Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Áður höfðu sérfræðingarnir í myndverinu verið að tala saman um leikinn og Jürgen Klopp heyrði Roy Keane tala um að leikur Liverpool hefði verið svolítið subbulegur.

David Jones umsjónarmaður spjallþáttarins á Sky Sports spurði Klopp hvað hann hefði verið ánægður með í leik liðsins.

„Allt. Heyrði ég rétt að Herra Keane hefði sagt að þetta hafi verið subbuleg frammistaða hjá okkur í kvöld? Sagði hann það,“ spurði Jürgen Klopp og Roy Keane svaraði:

„Mér fannst að þeir gáfu tvo eitt eða tvö færi á sér í leiknum sem þeir ættu að vera óánægðir með,“ sagði Roy Keane.

„Ég var ekki viss um hvort ég heyrði þetta rétt en kannski var hann að tala um annan leik. Það getur ekki hafa verið þessi leikur,“ sagði Klopp.

„Það er í bara ótrúleg lýsing á þessum leik. Hann var algjörlega stórkostlegur. Ekkert var subbulegt hjá okkur, alls ekkert,“ sagði Klopp.

Roy Keane var þó ekki tilbúinn að bakka mikið með sitt mat.

„Ég held að þér hafi misheyrst. Ég sagði bara að það hafi verið subbuleg móment í leiknum en annars voru þið frábærir. Ég hef verið að hrósa liðinu og ég held að þú hafir ekki heyrt þetta rétt,“ sagði Keane.

Roy Keane skaut síðan aðeins á Jürgen Klopp eftir að viðtalinu var lokið. „Sá er viðkvæmur. Jesús, ímyndunum okkur viðbrögðin ef þeir hefðu tapað,“ sagði Keane.

Liverpool vann hins vegar leikinn 3-1 og er með fullt hús á toppnum með Leicester City og Everton eftir þrjá leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×