Erlent

Nýr emír sór em­bættis­eið í Kú­veit

Atli Ísleifsson skrifar
Sheikh Nawaf al-Ahmad al-Sabah sór í morgun embættiseið eftir að forveri hans í embætti, hálfbróðirinn Sheikh Sabah al-Ahmad al-Sabah, andaðist í gær, 91 árs að aldri.
Sheikh Nawaf al-Ahmad al-Sabah sór í morgun embættiseið eftir að forveri hans í embætti, hálfbróðirinn Sheikh Sabah al-Ahmad al-Sabah, andaðist í gær, 91 árs að aldri. AP

Nýr emír Kúveit hefur heitið því að vinna að velferð, stöðugleika og öryggi í landinu. Sheikh Nawaf al-Ahmad al-Sabah sór í morgun embættiseið eftir að forveri hans í embætti, hálfbróðirinn Sheikh Sabah al-Ahmad al-Sabah, andaðist í gær, 91 árs að aldri. Búið er að lýsa yfir fjörutíu daga þjóðarsorg vegna fráfalls Sabah.

Nýi emírinn hvatti í ræðu til einingar meðal Kúveitmanna til að hægt verði að glíma við þær áskoranir sem framundan væru. „Okkar ástkæra land stendur í dag frammi fyrir erfiðum aðstæðum og hættulegum áskorunum sem einungis er hægt að komast í gegnum með því að standa og vinna ötullega saman,“ sagði hinn 83 ára Sheikh Nawaf al-Ahmed.

Sheikh Sabah al-Ahmad al-Sabah andaðist á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum, en þar hafði hann dvalið síðan í júlí eftir að hafa gengist undir skurðaðgerð vegna ótilgreinds sjúkdóms fyrr í sama mánuði.

Reiknað er með að lík hins látna emírs komi til Kúveit í dag, en útförin mun fara fram í viðurvist einungis nánustu fjölskyldu hans vegna heimsfaraldursins.

Sabah-fjölskyldan hefur stýrt Kúveit síðastliðinn 260 ár. Fréttaskýrendur segja að ekki megi reikna með neinum stórkostlegum breytingum á stefnu landsins í olíu- eða utanríkismálum, eða þá þegar kemur að fjárfestingum í landinu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×