Viðskipti innlent

Fallist á endurupptöku í BK-málinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Er fallist á endurupptökubeiðnina þar sem sakborningur í málinu hafi með réttu mátt draga óhlutdrægni eins dómara í Hæstrétti í  efa vegna peninga sem dómarinn tapaði við fall Glitnis haustið 2008.
Er fallist á endurupptökubeiðnina þar sem sakborningur í málinu hafi með réttu mátt draga óhlutdrægni eins dómara í Hæstrétti í  efa vegna peninga sem dómarinn tapaði við fall Glitnis haustið 2008. Vísir/Vilhelm

Endurupptökunefnd hefur fallist á beiðni Magnúsar Arnars Arngrímssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Glitnis, um að tveggja ára fangelsisdómur sem hann hlaut í svokölluðu BK-máli í Hæstarétti árið 2015 verði endurupptekinn.

Frá þessu er greint á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Þar segir að forsendur endurupptöku dómsins séu fjárhagslegir hagsmunir Markúsar Sigurbjörnssonar, eins dómara málsins í Hæstarétti. Markús tapaði tæplega átta milljónum króna á falli Glitnis haustið 2008.

Segir í niðurstöðu endurupptökunefndar að í ljósi þeirra fjármuna sem dómarinn tapaði hafi Magnús Arnar mátt hafa ástæðu til að draga óhlutdrægni dómarans í efa.

Auk Magnúsar Arnars hlutu þeir Birkir Kristinsson, fyrrverandi viðskiptastjóri hjá Glitni, Elmar Svavarsson, fyrrverandi verðbréfamiðlari hjá bankanum, og Jóhannes Baldursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis, dóm í málinu.

Fjórmenningarnir voru ákærðir fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og brot á lögum um ársreikninga í tengslum við 3,8 milljarða lánveitingu Glitnis til félagsins BK-44 í nóvember 2007. Félagið var í eigu Birkis.

Hæstiréttur mildaði dóma héraðsdóms í málinu. Birkir var dæmdur í fjögurra ára fangelsi en hafði hlotið fimm ára dóm í héraði, Elmar fékk sömuleiðis fjögurra ára dóm í Hæstarétti en hafði verið dæmdur í fimm ára fangelsi í héraði.

Þá var Jóhannes dæmdur í þriggja ára fangelsi í Hæstarétti en hlaut fimm ára dóm í héraði og fjögurra ára dómur Magnúsar í héraði varð tveggja ára dómur í Hæstarétti.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×