Viðskipti innlent

Inter gagnrýnir Símann

Inter, samtök netþjónustufyrirtækja, gagnrýna skort á gagnsæi í ársreikningum Símans. Samtökin telja þar eigi að koma fram rekstrarlegur aðskilnaður sviða Símans sem eiga í samkeppnisrekstri. "Kveðið er á um í samkeppnislögum að fyrirtæki í markaðsráðandi greini þannig á milli. Í staðinn er afkoma deilda tekin saman í eina tölu," segir Björn Davíðsson, stjórnarmaður í Inter. "Við höfum gert því skóna að Síminn hafi t.d. látið deildina sem við keppum við [Síminn Internet] sleppa við tiltekinn kostnað, svo sem við hönnun og gerð auglýsinga," segir Björn. Í svari fjármálaráðherra um sama mál á Alþingi segir að ráðuneytinu sé ekki kunnugt um að Póst - og fjarskiptastofnun hafi farið fram á við Símann "að hann viðhafi fjárhagslegan aðskilnað í umræddri starfsemi". Björn furðar sig á þessu svari. "Það er mjög alvarlegt mál ef ráðherrar eru farnir að víkja sér undan því að svara spurningum í stað þess að afla upplýsinganna sem þeir þó hafa aðgang að sem handhafi hlutabréfsins," sagði hann. Að sögn Björns er Inter með nokkur mál í gangi hjá Samkeppnisstofnun vegna Símans, bæði umkvartanir og ábendingar og svo einnig kærur, t.d. vegna samtvinnunar þjónustu frá óskyldum deildum. Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, segir að af hálfu stofnunarinnar sé farið fram á bókhaldslegan aðskilnað, en það sé dálítið annað en fjárhagslegur aðskilnaður líkt og farið sé fram á af hálfu Samkeppnisstofnunar. "En hún mælti fyrir um slíkan aðskilnað með ákvörðun númer 17 frá árinu 1999," sagði Hrafnkell. "Varðandi bókhaldslegan aðskilnað milli deilda fylgjum við ákvörðunum Samkeppnisstofnunar og laga og reglugerðarfyrirmælum þar að lútandi. Enda höfum við hvorki fengið athugasemdir við framkvæmdina á því frá Samkeppnisstofnun, né Póst- og fjarskiptastofnun," sagði Páll Ásgrímsson, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Símans, og bætti við að Síminn kysi annars að tjá sig ekki um mál á meðan þau væru til meðferðar hjá Samkeppnisstofnun. "Við höfum frest til júníloka að veita umsögn um erindi stofnunarinnar og í bili er ekki meira um það að segja," sagði Páll.




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×