Menning

Ekur um á amerískum eðalvagni

Ragnar Bjarnason söngvari á amerískan bíl af gerðinni Mercury Marquis, árgerð ´92, og var hann keyptur frá Florída fyrir rúmum sex árum síðan. Ragnar segist vera haldinn amerískri bíladellu sem skýrist af því að hér áður fyrr keyrði hann nær eingöngu ameríska bíla þegar hann vann sem leigubílstjóri hjá BSR. "Bíllinn er bæði rúmgóður og hefur nánast ekkert bilað síðan ég keypti hann. Hann er afturhjóladrifinn og það nægir að stýra með einum putta. Hann er því afskaplega þægilegur í akstri. Ég á ekki í neinum vandræðum með að fá á varahluti í bílinn því varahlutavandræði eru að mestu úr sögunni. Ég fer annaðhvort í Bílabúð Benna eða panta varahlutina á netinu og tekur hvort tveggja stuttan tíma," segir hann. Ragnar á um þessar mundir 50 ára söngafmæli og í september verður kappinn sjötugur. Í tilefni þess ætlar hann að gefa út disk í haust og er hann búinn að fá til liðs við sig fjöldann allan af frábærum söngvurum sem mun syngja með honum á disknum. "Bogomil Font, Silja Ragnarsdóttir, Bjarni Ara, Guðrún Gunnarsdóttir, Páll Óskar og fleiri ætla að taka lagið með mér. Á disknum verður einnig eitt lag til minningar um Sumargleðina. Það lag mun ég syngja ásamt gömlu félögunum úr Sumargleðinni þeim Ómari Ragnarssyni, Þorgeiri Ástvaldssyni, Hemma Gunn og Magnúsi Ólafssyni. Það má því búast við að mikið fjör verði í því lagi," segir Ragnar og hlær.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×