Menning

Eini bíllinn á landinu

"Það er nú ekki vinsælt að gera svona bíla upp en ég er mjög hrifinn af þessari tegund af bílum," segir Kristján Jóhannsson starfsmaður Vagna og þjónustu. Kristján er eigandi glæsilegrar Ford Cortinu árgerð 1968. "Þetta er eina eintakið af þessari gerð, sem er skutulbíll, hér á landi og ég held að aðeins þrír séu til í Svíþjóð," segir Kristján sem keypti bílinn árið 1995 fyrir mjög lítinn pening af konu á Akureyri. "Bíllinn var ekki gangfær þegar ég keypti hann enda búinn að standa fyrir utan hús konunnar í sjö til átta ár á Akureyri. Hún hafði auglýst í fornbílaklúbbnum en enginn vildi blessaðan bílinn," segir Kristján, og bætir við að hann sé mjög hrifinn af gömlum hlutum. "Það hefur alltaf heillað mig að vera öðruvísi en aðrir og því finnst mér mjög gaman að keyra um bæinn á bílnum mínum," segir Kristján. Kristján og bróðir hans hafa haldið bílnum vel við og stóðst hann meira að segja skoðun nú á dögunum. "Ég lagði mikið í hann til að koma honum í gegnum skoðun og svo hann væri öruggur. Þó hann sé gamall þá þarf hann samt að vera í lagi," segir Kristján. Hann hefur meðal annars skipt um vél í bílnum og gert örlítið við boddíið en bara það allra nauðsynlegasta.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×