Innlent

Skreiðarhjallar lögðust á hliðina

Nokkurt tjón varð í Vestmannaeyjum í óveðri í fyrrinótt og var erilsamt hjá lögreglunni frá miðnætti til klukkan níu í gærmorgun. Björgunarfélag Vestmannaeyja hjálpuðu lögreglu að festa þakplötur og lausa muni. Skreiðarhjallar með á milli sextíu til áttatíu tonn af skreið lögðust á hliðina, í sunnanverðri Heimaey, í hvassviðrinu. "Það kom brjálað rok sem feykti niður öllum hjöllunum. Síðan var unnið að því að tína fiskinn úr þeim og hengja þá á aðra hjalla, síðan þarf að reisa hjallana aftur við," segir Magnús Gylfason, einn af forsvarsmönnum fiskverkunarinnar Lóndranga sem á skreiðina. Magnús segist ekki vera viss um hvenær starfinu ljúki en hann telur að hægt verði að bjarga mestu af skreiðinni. Þakplötur fuku víðs vegar um bæinn og fór ein þeirra inn um stofuglugga á húsi á Vesturvegi. Bíll skemmdist nokkuð þegar tjaldvagn fauk utan í hann. Landfestar losnuðu á tveimur litlum bátum í höfninni og skemmdist annar þeirra þegar þeir rákust saman. Þá lagðist ljósastaur á hliðina við Hamarsskóla.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×