Innlent

Sorpfjallið of hátt

Niðurstaða Skipulagsstofnunar er, að sorpfjall Sorpstöðvar Suðurlands sé orðið hærra en deiliskipulag geri ráð fyrir. Hins vegar tekur stofnunin til greina það álit Umhverfisstofnunar, að jafnvel gæti reynst hættulegt að hrófla við haugnum til lækkunar, að sögn Ásdísar Hlakkar Theódórsdóttur aðstoðarskipulagsstjóra. "Á þessu byggði álit sem Skipulagsstofnun lét frá sér um þetta mál," sagði hún. "Við töldum að þarna væri hægt að fara út í breytingu á deiliskipulagi til að gera ráð fyrir hækkun á haugnum, án þess að farið yrði að hrófla við honum." Sveitarfélagið Ölfus er skipulagsvald á svæðinu. Sveitarstjórnin hefur tilkynnt lokun sorpstöðvarinnar 25. október og innheimtu dagsekta vegna þess að sorpfjallið sé orðið 3 - 7 metrum of hátt samkvæmt deiliskipulagi. Þessu hafnar stjórn stöðvarinnar. "Ef sveitarfélagið er sátt við þá þróun að þarna sé gert ráð fyrir hærri haug heldur en gert var á sínum tíma, þá er það leiðin til lausnar að breyta deiliskipulagi í samræmi við það," sagði aðstoðarskipulagsstjóri.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×