Innlent

Margir með illlæknanleg sár

Margir hér á landi þjást af illlæknanlegum sárum, að sögn Baldurs Tuma Baldurssonar húðsjúkdómalæknis. Í burðarliðnum er stofnun samtaka um sárameðferð. Baldur Tumi sagði að langvarandi og illlæknanleg sár gætu átt sér ýmsar orsakir. Þau gætu stafað af slæmri bláæðablóðrás, æðaþrengsla af völdum reykinga eða bilaðra loka í bláæðum. Þá gæti sykursýki leitt til erfiðra sára, svo og langvarandi rúmlegna. Baldur Tumi sagði ekki vitað hversu margir hér á landi þjáðust af slæmum sárum. Hjá öðrum þjóðum væri hlutfallið allt að einu prósenti. Búast mætti við svipuðu hér. Baldur Tumi benti á að þessi sjúklingahópur væri þögull. Það breytti því ekki að félagslegar og fjárhagslegar afleiðingar sjúkdómsins auk þeirra þjáninga sem hann ylli, væru geysilegar. Undanfari stofnunar samtakanna verður málþing um sárameðferð, sem haldið verður á Hótel Sögu 28. okt. klukkan 14 - 18.15. Þar munu þekktir sérfræðingar í sárameðferð í nágrannalöndunum flytja fyrirlestra.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×