Innlent

Um 260 milljóna heimildir ónýttar

Tryggingastofnun ríkisins hefur hvergi nærri fullnýtt heimildir á fjárlögum til niðurgreiðslu tannlæknakostnaðar á síðari árum, að sögn Gunnars Leifssonar tannlæknis og formanns kynningarnefndar Tannlæknafélags Íslands. Hann segir að á árunum 2001 - 2003 hafi vantað 262 milljónir króna upp á að svo væri. Tryggingastofnun greiðir niður 75% af tannlæknakostnaði barna til 18 ára aldurs, samkvæmt gjaldskrá heilbrigðisráðherra. "Ég held að það séu allir tannlæknar yfir þeirri gjaldskrá," sagði Gunnar. "Þetta er gjaldskrá sem ráðherra ákveður og hún er langt frá raunveruleikanum. Hún hækkar til dæmis ekki til samræmis við verðlagið í landinu. Verðlagning hjá tannlæknum er frjáls." Spurður hvort þetta fyrirkomulag yrði ekki til þess að barnmargar fjölskyldur hefðu ekki efni á að greiða fyrir sjálfsagða tannlæknaþjónustu barna sinna, sagði Gunnar að það væri engin spurning, að svo væri. Hins vegar lægju ekki fyrir nýjar tölur um tannheilsu barna. Tannlæknar vildu sjá slíkar tölur áður en þeir færu að tjá sig um stöðu þeirra mála. "En ef barnmargar fjölskyldur fara sjaldnar til tannlæknis vegna kostnaðar við þjónustuna, þá getur það leitt stefnt tannheilsu barna í voða, en við viljum sjá niðurstöður úr rannsóknum áður en við fullyrðum um eitthvað slíkt," sagði Gunnar. Hann sagði að vel væri hægt að hugsa sér að þær fjárhæðir heimildar sem Tryggingastofnun hefði ekki nýtt, hefðu verið notaðar til að hækka gjaldskrá ráðherra. Með því hefði verið hægt að minnka bilið á milli gjaldskrárinnar og taxta tannlækna og þar með útgjöld foreldra við tannlæknakostnað. Það segði sig sjálft að fengi fólk meiri hluta þjónustunnar endurgreiddan, þá ýtti það undir að það færi til tannlæknis.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×