Innlent

Skólagjöld leyfð í ríkisháskólum?

Ríkisstjórnin skoðar að leggja fram frumvarp sem heimilar skólagjöld í framhaldsnámi í íslenskum ríkisháskólum. Endanleg ákvörðun liggur þó ekki fyrir. Ólafur Proppé, rektor Kennaraháskóla Íslands, segir aðeins tímaspursmál hvenær skólagjöld haldi innreið sína í ríkisháskólana. Þeir geti ekki keppt við einkaskóla að óbreyttu.  Aðstoðarmaður menntamálaráðherra staðfesti í dag að ráðherrann væri að skoða kosti og galla þess að leggja fram slíkt frumvarp á þessu þingi. Ekki væri búið að semja sjálft frumvarpið og endanleg ákvörðun lægi því ekki fyrir. Um er að ræða skólagjöld á nemendur sem hafa lokið grunnmenntun í háskóla en sækja sér framhaldsnám til meistara- eða doktorsgráðu. Háskólinn í Reykjavík fékk á fjárlögum fé til að hafa sextíu nemendur í fullu kennaranámi. Ólafur Proppé segist ekki kveinka sér undan samkeppni en það sé ljóst að það sé ekki jafnræði með skólunum þar sem annar þeirra geti auk fullra ríkisframlaga innheimt skólagjöld af nemendum. Hann segir að það sé einungis tímaspursmál hvenær skólagjöld halda innreið sína í íslenska ríkisháskóla. Þeir séu ekki samkeppisfærir eins og staðan sé núna og Ólafur vill að breyting verði þar á. Ólafur segir það kannski ekkert óeðlilegt að fólk fjárfesti beint í eigin menntun og sæki síðan hærri laun í samræmi við það þegar út á vinnumarkaðinn sé komið. Það þurfi hins vegar að gæta að því að námslánakerfið taki mið af því að allir geti verið með. Hann segir að umræðan um skólagjöld hér sé hins vegar slagorðakennd og menn séu fastir í skotgrafahernaði. Hún sé þó að komast upp á yfirborðið og á Ólafur von á að hún komist inn á Alþingi í vetur. „Ef menn vilja góða háskóla þá verða þeir að fjármagna þá,“ segir Ólafur. 


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×