Innlent

Um 350 börn án kennslu

Um 350 börn í Ingunnarskóla í Grafarholti eru án kennslu og verða það alla vikuna.  Ástæðan er sú að skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, kennari og starfsmenn eru í kynnisferð í Minneapolis. Svanhildur Ólafsdóttir skólastjóri í Korpuskóla staðfesti þetta við blaðið, en hún er talsmaður skólans á meðan starfsfólk hans er í ferðinni. Svanhildur sagði jafnframt, að skóladagvist yrði rekin fyrir þá nemendur sem skráðir væru í hana, en það eru einungis 1. - 4. bekkur. Um 300 börn eru í Ingunnarskóla, en um 50 í Sæmundarseli, sem er eins konar útibú frá honum fyrir fjóra fyrstu bekkina. "Þau tóku þarna starfsdaga og vetrarfrí saman og eiga rétta á því," sagði Stefán Jón Hafstein formaður fræðsluráðs Reykjavíkur. "Þetta er í höndum viðkomandi skólastjóra og viðkomandi starfsmanna. Mitt álit kemur fram í ályktun fræðsluráðs frá því á föstudag, þar sem eindregið er mælst til þess að vetrarfrí verði felld niður en viðurkennum rétt skólastjóra og kennara til að haga því með öðrum hætti hafi fyrri áform gefið þeim ástæðu til." Elfa Bergsteinsdóttir móðir nemanda í 6. bekk Ingunnarskóla kvaðst hlynnt þessari gagnlegu ferð og vonast til þess að starfsfólkið gæti rifið upp andann eftir erfitt verkfall og byrjað að kenna af eldmóði, þegar það kæmi aftur.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×