Innlent

Mistök við breytingu erfðafjárlaga

Sex systkin sleppa við að greiða tæpar sex milljónir króna í erfðafjárskatt eftir lát foreldra þeirra vegna mistaka við breytingu á erfðafjárlögum. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar en Héraðsdómur hafði áður komist að sömu niðurstöðu. Faðir systkinanna lést í desember í fyrra en hann hafði setið í óskiptu búi eftir lát konu sinnar. Arfurinn nam 64 milljónum króna. Samkvæmt eldri lögum um erfðafjárskatt hefðu þau átt að greiða tæpar sex milljónir í skatt af honum en ný lög um afnám erfðafjárskatts tóku gildi 1. apríl, eða rúmum þremur mánuðum eftir lát föðurins. Systkinin luku hins vegar erfðafjárskýrslunni vegna dánarbúsins ekki fyrr en 10 apríl, eða tíu dögum eftir að skatturinn var felldur úr gildi. Sýslumaður vildi miða við dánardag föðurins en bæði Héraðsdómur og Hæstiréttur komust að þeirri niðurstöðu að í nýjum lögum um erfðafjárskatt hafi ekki verið í gildi nein löggjöf um erfðafjárskatt vegna þeirra sem látnir voru fyrir 1. apríl og því hafi sýslumann skort heimild til að leggja erfðafjárskatt á systkinin. Með öðrum orðum, það hafi hreinlega gleymst að kveða á um mál af þessu tagi. Líkur eru á að fleiri svipuð mál hafi komið upp og eiga erfingjar þá kröfu á endurgreiðslu ef þeir hafa greitt skattinn möglunarlaust.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×