Sport

O Neal byrjaður að mæta á æfingar

Jermaine O Neal, leikmaður Indiana Pacers í NBA körfuboltanum sneri aftur til æfinga í dag í fyrsta sinn síðan hann var úrskurðaður í 25 leikja bann í lok nóvember. O Neal er einn þriggja leikmanna Pacers sem settir voru í löng leikbönn vegna þátttöku sinnar í hópslagsmálunum margfrægu við áhorfendur í Detroit 19. nóvember sl. Leikmaðurinn tjáði sig ekki einu orði við fjölmiðla þegar hann mætti á æfinguna í dag. Auk O Neal var félagi hans hjá Indiana, Ron Artest, úrskurðaður í bann út tímabilið og sá þriðji, Stephen Jackson í 30 leikja bann. Ástæða þess að O Neal fékk stysta bannið af þremenningunum er sú að hann náði aldrei alla leið upp á áhorfendapallana eins og félagar hans en hann náði þó að rétta einum áhorfanda hnefahögg sem tryggði bannið langa. Þó að O Neal sé byrjaður að æfa aftur verður hann að bíða í 17 leiki til viðbótar áður en hann má leika á ný, nema lögfræðingum Pacers takist að fá bönn leikmannanna stytt. Leikmannasamtök NBA hafa áfrýjað þessum leikbönnum í von um að fá þau stytt og fara yfirheyrslur í málinu fram í Manhattan á fimmtudag og föstudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×