Leikjavísir

Spider Man 2

Það sem kom kannski mest á óvart í leikjaheiminum árið 2004 var hversu góðir nokkrir leikir sem byggðir voru á bíómyndum voru. Yfirleitt er hægt að afskrifa alla slíka leiki jafnvel áður en maður spilar þá. Þessu er rignt yfir mann í hvert skipti sem einhver mynd fær góða aðsókn. Beljan er mjólkuð meðan hún gefur. En það eru alltaf undantekningar. Spider-Man 2 kom eins og þruma úr heiðskýru lofti og sló í gegn. Hann fylgir söguþráði myndarinnar algjörlega eftir en býður upp á margt annað. Leikjahönnuðirnir hafa ákveðið að fara „GTA-leiðina”, þ.e.a.s láta spilendur ekki fylgja ákveðinni leið, heldur hafa stórt opið svæði sem hægt er að ferðast um að eins og maður vill. Eins og ég nefndi áður fer leikurinn alveg eftir söguþræði myndarinnar. Peter Parker er í allskonar veseni í einkalífinu og ekki skánar það þegar vísindamaðurinn Otto Octavius breytist í illmenni með fjóra aukahandleggi sem þráir ekkert heitar en að drepa Spiderman og koma þannig fram hefndum. Í bíómyndinni gekk þetta allt mjög vel upp og ætlaðu leikjahönnuðirnir í Treyarch að leika það eftir og segja söguna í tölvuleikjaformi. En einhvern vegin finnst mér eins og þeir hafa ekki nennt að gera þetta almennilega. Myndskeiðin í Spider-Man 2 leiknum eru eins og B-mynda útgáfa af kvikmyndinni sjálfri. Allir leikararnir hljóma eins og þeir vilji bara drífa í því að talsetja þetta, og hönnuðir leiksins hafa myndböndin eins stutt og einföld og mögulegt er. Það er næstum eins og þeir hafi séð þetta sem einhverja hindrun fyrir spilunina. Það væri bara bölvað vesen að vera að setja einhvern söguþráð í þetta og best að drífa það bara af og leyfa spilendunum að sveifla sér og lemja vondu kallana. En eftir að myndskeiðin klárast batnar þetta samt gríðarlega. Það er alveg magnað að sveifla sér á milli háhýsanna í leiknum. Hann hægir aldrei á sér og umhverfið er næstum gallalaust. Þetta er bara New York í tölvu-formi. Svo einfalt er það. Eins nákvæm eftirlíking og hægt er að óska sér. Viltu sveifla þér til Manhattan? Gerðu svo vel. Viltu stökkva niður af Empire State byggingunni? Ekkert mál. Bílar eru á hreyfingu, fólk gengur um göturnar og það skiptir engu hvar maður stendur. Maður sér alltaf eins langt og mannsaugað leyfir. Það er hægt að fara upp á háhýsi og horfa á alla borgina ef maður vill. En þó að umhverfið sé svona flott er ekki hægt að segja það sama um persónurnar. Menn hreyfa ekki muninn þegar þeir tala, þeir standa bara eins og einhverjir spýtukallar. Andlitin eru næstum því eins og þetta sé Playstation 1 leikur. Það er næstum því sársaukafullt að horfa á þetta. Af hverju gátu Treyarch-menn ekki eytt aðeins meiri tíma í að fínpússa persónurnar, og setja aðeins fleiri „pixela” í þær? Eftir því sem maður kemst lengra í leiknum lærir maður fleiri bardagabrögð og leiðir til að sveifla sér. Þetta er flottur fítus, sem gefur leiknum smá RPG-keim. Bardagakerfið er þrælsniðugt, það er t.d. hægt að gera frekar fyndna hluti eins og að taka óvininn upp, sveifla sér með hann upp á háhýsi og kasta svo niður. Eða hengja hann upp í ljósastaur. En það sem mér finnst skemma það svolítið er hversu fjandi mikið þessir gaurar sem maður berst við geta varið sig. Það er næstum algjör undantekning að maður nær að kýla og sparka í þá án þess að gera eitthvað við þá fyrst. Þetta eyðileggur algjörlega flæðið í slagsmálunum. Þegar maður spilar sig í gegnum söguþráð leiksins fær maður allskonar verkefni, eins og í GTA. Þessi verkefni eru sæmilega fjölbreytt og ágætis endakallar eru þarna á milli. Mér finnst þetta samt detta aðeins niður í enda leiksins. Einnig er hægt að taka aukaverkefni þar sem maður talar við fólk sem er í vanda á götum borgarinnar. En það vantar fjölbreytni í þau. Hversu oft nennir maður að elta bíl sem hefur verið stolið, taka gaurinn úr bílnum og lemja hann? Þó að það geti verið þrælskemmtilegt að gera þetta allt finnst mér oft eins og maður sé alltaf að gera það sama aftur og aftur. Hljóðið í leiknum er frekar slappt. Eins og ég sagði áður er talsetningin mjög illa gerð. Og það sem verra er þá vantar algjörlega tónlist í þetta. Mér finnst leikurinn alltaf vera voðalega tómlegur, nema öðru hverju þegar Spider-Man lagið úr myndunum er spilað. En þrátt fyrir marga galla er Spider-Man 2 samt stórskemmtilegur. Stærsti kostur hans er að geta ferðast eins og „Lói” sjálfur um gríðarlega nákvæma eftirlíkingu af New York borg. Ég er viss um að langflestum myndasögu nördum hefur dreymt um að geta gert þetta lengi. Niðurstaða: Spider-Man 2 er einn af þessum leikjum sem kemst upp með það að vera langt frá því að vera gallalaus því hann bætir það upp með sniðugri spilun og einhverju flottasta umhverfi sem sést hefur í tölvuleik. Vélbúnaður:    Playstation 2 Framleiðandi: Treyarch Útgefandi:       Activision Heimasíða:     http://www.activision.com
Umhverfið í Spider-Man 2 er sérlega glæsilegt.
Ég sé húsið mitt héðan!
Eitt af því kvikindislegasta en jafnframt skemmtilegasta sem hægt er að gera við óvinina er að henda þeim niður af húsþökum.
Lói er einstaklega lipur og það er stór hluti af bardagakerfinu að færa sig frá höggum óvinina og koma með gagnárás.
Það er ótrúlega skemmtilegt að sveifla sér á ofsahraða í gegnum borgina.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×