Sport

FH-ingar mæta sterkir til leiks

FH vann Keflvíkinga 2-0, í Meistarakeppni KSÍ í gær og það án dönsku leikmannanna þriggja. Þrátt fyrir það voru FH-ingar mjög sterkir og greinilega með mannskapinn í meistaralið í deildinni í sumar. Blaðamanni leist ekki á blikuna á leiðinni í Kaplakrika. Úrhellisrigning var á Reykjanesbrautinni en svo virtist akkurat birta til þegar nær dró Krikanum. Sólin braust fram og skein á leikmenn FH og Keflavíkur sem háðu hinn árlega Meistarakeppnisleik KSÍ sem markar upphaf Íslandsmótsins. Liðin mætast svo aftur strax í 1. umferð mótsins, en þá í Keflavík. FH-ingar mættu til leiks án Dananna þriggja. Tommy Nielsen tók út bann frá síðasta tímabili – Allan Borgvardt og Dennis Siim áttu við smávægileg meiðsl að stríða. Annars var liðinu stillt upp nokkurn veginn eins búast mátti við. Davíð Þór Viðarsson, sem fær ekki leikheimild með liði sínu Lilleström fyrr en 1. júlí, kom til landsins um helgina og fór beint inn í bakvarðarstöðu Freys Bjarnasonar, sem var í miðju varnarinnar fyrir Nielsen. Það var óneitanlega gaman að sjá Tryggva Guðmundsson aftur í íslenska boltanum og er greinilegt að þó hann sé nokkrum árum eldri hefur hann aðeins bætt sig á þeim tíma sem hann var erlendis sem atvinnumaður. Handbragð Guðjóns Þórðarsonar var augljóst á Keflavíkurliðinu. Liðið er mjög skipulagt, leikur þéttan varnarleik með tvo afturliggjandi miðjumenn sem sækja fram í skyndisóknum. Hörður Sveinsson var einn fremstur en Hólmar Örn Rúnarsson hvíldi á bekknum. Hann kom inn á í síðari hálfleik en hafði lítil áhrif á framvindu mála.FH-ingar höfðu yfirhöndina í fyrri hálfleik og skoruðu mörkin tvö þá. Atli Viðar Björnsson skoraði það fyrra á 11. mínútu, eftir að Ómar Jóhannsson náði ekki að halda góðu skoti Tryggva. Á lokamínútu hálfleiksins var varnarmaðurinn Freyr Bjarnason mættur í vítateig Keflvíkinga og skoraði með föstu skoti eftir að boltinn hafði dottið fyrir hann eftir aukaspyrnu frá miðjum vallarhelmingi gestanna. Guðjón Þórðarson fór greinilega vel yfir málin hálfleik með sínum mönnum því Keflvíkingar voru mun betri aðilinn fyrri hluta síðari hálfleiksins. Ekki tókst þeim þó að ógna marki FH að einhverju ráði enda FH-vörnin gífurlega sterk, þó Nielsen hafði vantað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×