Sport

Ætla að kveðja með titli

Það verður sjónarsviptir af Heimi Guðjónssyni þegar hann leggur skóna á hilluna enda hefur hann verið einn litríkasti karakterinn í boltanum síðustu árin Heimir hefur gengið í gegnum súrt og sætt á sínum ferli og hann var búinn að bíða lengi eftir því að fá að hampa bikarnum eftirsótta þegar FH varð meistari í fyrra. Heimir og FH mæta til leiks á svolítið öðrum forsendum í ár en áður þar sem þeir þurfa að verja titilinn og það er ætlast til þess að þeir geri það. „Það er nýtt en á móti kemur að 2003 þá var okkur spáð falli en við enduðum í öðru sæti. Við fylgdum því eftir með stæl og sýndum karakterinn sem býr í þessu liði. Ég kvíði því ekkert að mæta til leiks sem ríkjandi meistari og það er bullandi metnaður í hópnum og ég veit að menn ætla að verja þennan titil," sagði Heimir en segja má að FH hafi tekið við kyndlinum af KR en nánast hefur verið ætlast til þess að þeir yrðu meistarar síðustu ár. „Það getur verið að svo sé en við erum vissulega með sterkan og breiðan mannskap sem getur gert góða hluti. Við erum samt ekkert einir um það enda hafa mörg lið verið að styrkja sig. KR og Valur hafa styrkt sig mikið og eru líkleg til afreka þannig að það verður ekki auðvelt að verja titilinn," sagðu Heimir sem neitar því ekki að FH sé einnig orðið ansi vel mannað. „Við erum kannski með betri mannskap en í fyrra en að má samt ekki gleyma því að það tekur tíma að slípa liðið saman. Við höfum ekki verið að spila eins vel núna og við gerðum á sama tíma í fyrra." Það er mikið talað um að þetta verði tveggja liða mót í sumar og að ekkert lið geti barist um titilinn með FH og KR. Heimir er því ósammála. „Mér finnst alls ekki svona mikill munur á okkur og hinum liðunum. Við höfum til að mynda verið að spila við Val og þeir eru mjög massífir og hafa lagt okkur að velli. Ég hef ekki trú á því að við og KR munum stinga hin liðin af," sagði Heimir sem ætlar að leggja skóna á hilluna eftir sumarið eins og áður segir. Ólíkt mörgum öðrum finnst honum tilhugsunin um að hætta ekki vera erfið.  „Það er alveg stórkostleg tilfinning að vita að þessu verður öllu lokið í lok sumars," sagði Heimir og hló dátt. Hann hefur aðeins í hyggju að yfirgefa íslenska knattspyrnu á einn hátt. „Ég vil enda þetta á góðum nótum í sumar og það kemst ekkert annað að en að vinna titilinn aftur með FH. Það er engin spurning að ég ætla að kveðja með titli. Annars hefði ég ekki tekið eitt ár í viðbót," sagði Heimir en hann lofaði því að honum myndi ekki snúast hugur færi svo að FH næði ekki takmörkum sínum í sumar. „Ég get alveg lofað fólki því að ég kem ekki aftur. Eini möguleikinn er að það væri í 3. deildinni með góðum félögum. Þá með liði þar sem það væri ekkert æft, aðeins spilað."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×